Drasl eða djásn
Í miðannarvikunni hefur hópur nemenda endurnýtt gamla hluti og búið til nýjar vörur. Nemendur öfluðu sér hráefnis, rannsökuðu það, greindu og mátu möguleikana á nýtingu. Í vettvangsferð um bæinn og heimsókn í nokkur fyrirtæki var aflað fanga og fróðleiks um smíði og framleiðsluaðferðir. Meðal hluta sem til urðu er borð sem hefur brúsa fyrir fætur en brotnar flísar skreyta plötuna, stólar úr rörum og líka stólar úr frauðplasti. Gamall þrýstikútur varð að fótstykki fyrir lítið borð og lampa en rör úr fótboltamarki heldur ljósinu uppi. Þá eru markmannshanskar að öðlast framhaldslíf sem blómapottar. Lokaskrefið er síðan að stilla vörunni upp til kynningar eða auglýsingar. Almenn ánægja er með námskeiðið og orðaði einn nemandinn það svo að sjónsviðið hefði stækkað varðandi hvað hægt væri að gera úr gömlum hlutum. Leiðbeinandi var Dagur Óskarsson, vöruhönnuður.
Myndir