Hafið er námskeið fyrir nemendur sem óska eftir aðstoð í sambandi við kvíða. Þegar hafa sextán nemendur skráð sig, bæði fjarnemar og staðnemar, en það er pláss fyrir fleiri. Sigríður Ásta Hauksdóttir, náms- og starfsráðgjafi og Kristján Már Magnússon, sálfræðingur, hafa umsjón með námskeiðinu. Það fer aðallega fram í kennslukerfinu, moodle, þar er fræðsluefni, myndbönd, lesefni og fleira ásamt æfingum og verkefnum. Fyrir þá sem vilja komast á námskeiðið er fyrsta skrefið að skrá sig hjá Sigríði Ástu á netfanginu namsradgjof@mtr.is. Á námskeiðinu er farið yfir kvíða og birtingarmyndir hans og þann vítahring sem hamlandi kvíði getur valdið í daglegu lífi, skoðaðar þær neikvæðu hugsanir sem búa að baki kvíða og unnið með leiðir til að létta á kvíða. Óvissutímum eins og við lifum núna fylgir álag sem eykur kvíða margra og gerir samskipti erfiðari. Aðferðir til að bregðast við þessu og bæta ástandið eru kenndar á námskeiðinu.