Í nágrenni MTR eru fjölmargir og fjölbreyttir möguleikar til kennslu í útivist. Einn áfanginn er útivist í snjóleysi, ÚTIV2HR05, sem kenndur er að hausti þegar jörð er auð. Hann er að mestu verklegur. Nemendur kynnast undirstöðuatriðum í klettaklifri, sigi, fjallahjólun, sjósundi, sjókajakróðri, útieldamennsku og fjallamennsku. Mikil áhersla er lögð á að nemendur verði sjálfstæðir í óbyggðum, geti metið aðstæður með tilliti til öryggis og tekið skynsamlegar ákvarðanir varðandi t.d. leiðaval og notkun öryggisbúnaðar.
Í gær hjóluðu nemendur í þessum áfanga “sveitahringinn”, en svo kallast leiðin í kringum Ólafsfjarðarvatn. Leiðin er um 17 kílómetrar og voru aðstæður nokkuð krefjandi, frekar blautt eftir rigningar síðustu daga og vegurinn holóttur. Stemningin var engu að síður góð og nemendur skemmtu sér vel. Í ferðarlok var ekki vanþörf á að renna við á þvottaplaninu hjá Olís og skola af fararskjótunum og jafnvel nemendum líka.