Fréttir

Piparkökur og vöfflur

Nemendafélagið Trölli skellti í vöfflur í morgun í tilefni af yfirvofandi jólafríi, eins og formaðurinn komst að orði. Sísvangir nemendur gæddu sér á vöfflunum og höfðu vel af rjóma og sultu með. Piparkökur voru skreyttar með súkkulaði og glassúr og settu hátíðlegan blæ á samverustundina í Hrafnavogum.
Lesa meira

Ályktunartölfræði

Í áfanganum STÆR3TÁ05 fá nemendur innsýn í tölfræði sem mikið er notuð og víða. Í æfingu vikunnar söfnuðu nemendur gögnum, flokkuðu, settu fram tilgátu og notuðu kí-kvaðrat-próf til að meta hana. Meðal annars var kannað hvort vatnsdrykkja, sundferðir og kaup á skyndibita væru mismunandi milli kynja. Sett var fram svokölluð 0-tilgáta, það er að enginn munur væri á kynjum. Nemendur notuðu hentugleikaúrtak og google forms til að flokka og vinna með gögnin. Að endingu var svo skrifuð skýrsla. Niðurstöður bentu til að ekki væri munur vatnsdrykkju kynja og ekki heldur á kaupum á skyndibita. Hins vegar virðast konur duglegri að synda en karlar og væri ástæða til að kanna muninn sem fram kom nánar. Kennari í ályktunartölfræði er Unnur Hafstað.
Lesa meira

Foreldrafélag - aðalfundur

Aðalfundur Foreldrafélags MTR verður haldinn í skólanum þriðjudaginn 5. desember kl. 17:00. Markmið félagsins er að efla samstarf foreldra um mál sem varða velferð og þroska nemenda og vera vettvangur samstarfs foreldra og forráðamanna nemenda. Einnig að skapa farveg fyrir samskipti við stjórnendur skólans um málefni ólögráða nemenda og styðja heimili og skóla í að búa nemendum góð skilyrði til menntunar.
Lesa meira

Í frímínútum

"Hvað gera nemendur í frímínútum?" var rannsóknarspurning í lítilli vettvangsathugun eins nemandans í sálfræðiáfanganum SÁLF2AA05 í síðustu viku. Niðurstöður benda til þess að liðlega þriðjungur nemenda tali saman í löngu frímínútunum en tæplega fjórðungur læri og álíka hlutfall noti farsímann. Fáeinir voru í tölvunni að gera eitthvað annað en læra, fóru út af skólalóðinni eða fengu sér að borða. Tveir sváfu. Vettvangsathugunin fór fram í löngu frímínútunum, kl. 9:10-9:30 þrjá morgna í síðustu viku.
Lesa meira

Veðurhamur og viðbrögð

Nemendur eru beðnir um að meta aðstæður áður en þeir leggja af stað í skóla og hafa samráð við forráðamenn séu þeir undir lögaldri. Skólaakstur frá Dalvík og Siglufirði er ákvarðaður af bifreiðastjórum sem sem bera ábyrgð á akstrinum. Strætó frá Akureyri tekur sínar ákvarðanir. Aki þeir ekki er það tilkynnt á heimasíðu skólans þegar við fáum þær fregnir. Sé talið að veður hamli för eða sé áhættusamt, en skólabifreiðar og Strætó keyra, eru nemendur beðnir að tilkynna það á skrifstofu skólans. Nemendur stunda námið heima þá daga sem ferðaveður er ekki og hafa samband við kennara í Moodle, eða með öðrum hefðbundnum samskiptaaðferðum, gerist þess þörf. Engum skilafrestum er breytt.
Lesa meira

Fjölbreytt nemendaverkefni

Gerð heimildamyndar er meðal verkefna í áfanga um upplýsingatækni dreifnáms. Mynd, hljóð og texti eiga að koma fram í úrlausnunum. Efnisval er frjálst að öðru leyti en því að viðtal eða viðtöl eiga að vera við fólk sem hvorki er í hópi nemenda né starfsmanna skólans. Í fjölbreyttum úrlausnum sem bárust í síðustu viku var meðal annars fjallað um sjómennsku, íþróttir, ferðamannastaði og sögulega atburði. Meðal viðmælenda voru
Lesa meira

Brasilísk tónlist – líf og fjör

Fjölþjóðlegur blær var yfir skólanum í síðustu viku þegar þrjátíu danskrir nemar og tveir kennarar þeirra unnu að samstarfsverkefni með MTR-nemum. Brasilískir taktar voru slegnir á fimmtudag þegar dönsku gestirnir og nokkrir heimamenn prófuðu þarlend hljóðfæri í Hrafnavogum. Guito Thomas og Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir áttu frumkvæði að þessari glaðlegu uppákomu í Hrafnavogum. Guito er tónlistarkennari við MTR en Sigrún er kennaranemi í tónlist við Listaháskólann. Hún hefur búið í Brasilíu og hefur leikið brasilíska tónlist opinberlega hér heima með Þórði Högnasyni og Ásgeiri Ásgeirssyni. Hún var hér í Fjallabyggð að fylgjast með tónlistarkennslu. Þau Guito ákváðu að grípa dönsku gestina glóðvolga og fá þá til að prófa brasilísku hljóðfærin. Heimamenn voru ekki jafn fúsir að reyna þessa nýbreytni en vissulega tóku nokkrir þátt í uppákomunni.
Lesa meira

Gagnleg ráðstefna

Markviss stefna Skota í notkun upplýsingatækni í skólastarfi vakti athygli kennara MTR sem sóttu EcoMediaEurope ráðstefnu í Glasgow í síðustu viku. Framtíðarsýn og stefna Skotanna er mótuð í samstarfi skóla og annarra menntastofnana við fulltrúa atvinnulífsins. Margt af því sem fram kom í fyrirlestrum og kynningum þótti MTR-fólki lærdómsríkt. Ekki síst framlag Kenji Lamb, stafræns ráðgjafa sem sagði frá ókeypis öppum og forritum til notkunar við nám og kennslu. Einnig má nefna upplýsingar um gagnagrunna þar sem nálgast má margvíslegt námsefni í forritun. MTR-kennararnir kynntu ýmsa tækni og aðferðir sem notuð eru hér í skólanum. Til dæmis hvernig upplýsingatækni hefur nýst á starfsbraut til að hjálpa nemendum að taka þátt í erlendu samstarfi með öðrum nemendum skólans. Kennari í ferðalandafræði sagði frá þeim áfanga og notkun upplýsingatækni þar. Áheyrendum þótti merkilegt hve frjálsræði er mikið í nýja íslenska framhaldsskólakerfinu til að skipuleggja ólíka áfanga. Til dæmis með svæðisbundnu efni sem höfðar beint til nemenda í ákveðnum skólum. Einnig greindi fjarkennari í listljósmyndun sem býr á Höfn í Hornafirði frá þeirri tækni sem hann notar í sínu starfi. Eins og sjá má af þessari upptalningu voru kynningar MTR-kennara fjölbreyttar og má að lokum geta þess að goðin í hinum forna átrúnaði þjóðarinnar fengu sinn sess. Frá þeim var sagt og síðan greindi kennari í íslensku frá því hvernig upplýsingatækni er notuð til að koma goðafræðinni til nemenda á skapandi hátt.
Lesa meira

Þjóðsögur á stafrænu formi

Heyra má dönsku á göngum skólans þessa dagana. Hér er staddur þrjátíu manna hópur frá Tækniskólanum EUC í Næstved og Köge á Sjálandi. Hópurinn vinnur með tuttugu og fimm MTR-nemendum að því að segja sögur á stafrænu formi. Hugmyndin er að þeir kynnist menningararfi eigin lands og samstarfslandsins ásamt því að æfa sig að nota mismunandi tæki og tól til að segja sögur með aðstoð stafrænnar tækni.
Lesa meira

Lára skólameistari ársins

Lára Stefánsdóttir, skólameistari MTR skaraði fram úr í könnun sem Félag framhaldsskólakennara gerði á viðhorfi félagsmanna til stjórnunarhátta og fagmennsku skólameistara. Sextán spurningar voru lagðar fyrir og dregnar saman niðurstöður úr svörunum „mjög sammála“ og „frekar sammála“. Liðlega helmingur kennara í MTR tók þátt í könnuninni. Eplið, fréttabréf, Félags framhaldsskólakennara greinir frá því að þátttaka hafi aðeins verið rúmlega 22% að meðaltali. Aðeins í 11 skólum af 30 hafi þátttaka verið meira en 20%. Félagið vonast til að könnunin verði hér eftir gerð árlega. Byrjað var að undirbúa hana árið 2014 en verkefnið fór ekki vel af stað og framkvæmdin hefur því tekið lengri tíma en ætlað var
Lesa meira