Fréttir

Valdefling og sjálfbærni

MTR hefur ásamt tveimur framhaldsskólum á Ítalíu og Spáni fengið ellefu milljón króna Erasmusstyrk til samstarfsverkefnis. Markmið þess er að finna leiðir til að efla nemendur til að takast á við framtíðina í hörðum heimi. Um níutíu nemendur taka þátt í verkefninu sem unnið verður á tveimur árum. Þetta eru landsbyggðakrakkar sem mörg hver munu í framtíðinni þurfa að búa til eigin tækifæri til framfærslu. Ætlunin er að draga fram styrkleika og hæfni í nemendahópunum og nýta til þess eiginleika skólakerfisins í hverju landi ásamt umhverfi og samfélagi á hverjum stað. Vinnan í verkefninu tengist meðal annars vistvænni ferðaþjónustu, listum, íþróttum, útivist og upplýsingatækni. Andinn í verkefninu einkennist af þátttöku og samstarfi við að þróa viðskiptahugmyndir sem geta veitt lífsviðurværi í sjálfbærum samfélögum á ólíkum stöðum. Markmiðið er að efla frumkvæði og auka líkur á að ungmenni skapi sér framtíð á æskuslóðum. Annar samstarfsskólinn er í Castel di Sangro um miðbik Ítalíu en sá spænski er á Lanzarote, sem er ein Kanaríeyjanna. Starfsmenn MTR stýra verkefninu.
Lesa meira

Lokaverkefni um sköpunarferlið

Anna Kristín Semey Bjarnadóttir rannsakaði sköpunarferlið í lokaverkefni sínu á vorönninni. Í kynningu sagði hún að gerð málverks krefðist meiri hugmyndavinnu en hún hafi haldið. Hún fór til Svíþjóðar og Bandaríkjanna í leit að innblæstri. Henni fannst mikið til þeirrar myndlistar koma sem hún sá í Svíþjóð en sagði að í Bandaríkjunum væri meiri fókus á nútímalist sem hún hefði minni áhuga á. Hún hafi spurt sig hverju hún vildi koma fram í lokaverkefni og þetta hafi endað sem þróunarferli sitt sem listamanns. Á endanum hafi hún samið blogg þar sem markmiðið komi fram og sýnt sé hvernig hún upplifi gerð verkanna. Hún hafi alltaf skissað mikið en athyglisbrestur sinn hafi gert að verkum að hún hafi sjaldnast lokið við það sem hún var að gera. En persónuleg þróun sem hún fór í gegn um í lokaverkefninu hafi hjálpað henni að læra öguð vinnubrögð, fylgja hjartanu og ljúka við verkin. Leiðbeinandi Önnu Kristínar var Bergþór Morthens, myndlistarkennari og málari.
Lesa meira

Stafræn sagnamennska – erlent samstarf

MTR hefur fengið Nordplusstyrk að upphæð fjórar milljónir króna til samstarfs við Tækniskólann EUC í Næstved og Köge á Sjálandi. Málið snýst um stafræna sagnamennsku og samskipti ungs fólks í fámennum samfélögum á Íslandi og í Danmörku. Viðfangsefnið er að nota upplýsingatækni til að segja sögur á netinu. Nemendur skólanna eiga það sameiginlegt að koma flestir úr tiltölulega dreifðum byggðum. Þeir munu kanna sagnaarfinn í hvoru landi um sig og leggja sérstaka áherslu á norræna goðafræði og sögur um dísir og tröll. Nemendur munu líka semja og segja eigin sögur. Á þennan hátt kynnast þeir menningararfi eigin lands og samstarfslandsins ásamt því að æfa sig að nota mismunandi tæki og tól til að segja sögur með aðstoð stafrænnar tækni. Áformað er að tuttugu og fimm manna hópur frá Danmörku komi á Tröllaskaga á haustönn og jafn margir nemendur MTR sæki Sjáland heim á vorönninni. Á meðan á heimsóknunum stendur semja nemendurnir saman nýjar sögur sem þeir segja með aðstoð stafrænu tækninnar sem þeir alast upp með. Ida Semey, tungumálakennari annaðist umsóknarferlið.
Lesa meira

Sjómannafjölskyldur - lokaverkefni

Hafrún Eva Kristjánsdóttir reyndi í lokaverkefni sínu að skyggnast inn í hugarheim sjómanna og aðstandenda þeirra, kanna samskiptin og komast að því hvernig fólk tekst á við fjarveru sjómanna frá heimili og fjölskyldu. Hún lagði spurningar fyrir sjö sjómenn og jafn marga aðstandendur sem voru systkin, foreldrar eða börn sjómanna en þó ekki í sömu fjölskyldu. Svörin leiddu í ljós að sjómennirnir höfðu misst af mikilvægum tímamótum í lífi fólksins í landi, t.d. afmælum, skírnum, brúðkaupum og jarðarförum en allir höfðu þeir verið viðstaddir fæðingu barna sinna. Allir aðstandendur sögðu að fjarvera sjómanna hefði töluverð áhrif á líf fólksins í landi, en enginn sagði að það væru slæm áhrif. Fjölskyldan aðlagaðist aðstæðum og lífið hefði sinn gang á meðan sjómaðurinn væri í burtu. Sjómenn sem komnir voru í land og aðstandendur fyrrverandi sjómanna sögðu að fjarveran hefði haft áhrif á ástarlífið en þeir sem voru enn á sjó og aðstandendur þeirra sem enn sækja sjó sögðu svo ekki vera. Hafrún Eva spurði líka um sjóhræðslu og kom í ljós að rúmlega helmingur aðstandenda sagðist aldrei eða sjaldan hafa óttast um sjómanninn. Liðlega þriðjungur sjómanna sagðist hafa þjáðst af sjóhræðslu en tæplega tveir þriðju sögðust aldrei eða sjaldan hafa gert það. Leiðbeinandi Hafrúnar Evu við lokaverkefnið var Hjördís Finnbogadóttir, kennari í félagsgreinum.
Lesa meira

Enginn sumarskóli

Vegna fjölda fyrirspurna er rétt að benda á að Menntaskólinn á Tröllaskaga er ekki með sumarskóla. Hægt er að skrá sig í fjarnám á haust- og vorönnum. Innritun á haustönn hófst 4. apríl á vef skólans.
Lesa meira

Stórkostlegt tækifæri fyrir útivistarfólk og ævintýramennsku.

Nú á haustönn mun Menntaskólinn á Tröllaskaga (MTR) kenna annars vegar útivist og hins vegar fjallamennsku í 3 lotum yfir önnina. Tvær af lotunum verða þriggja daga og ein tveggja daga en ásamt því verður námsefni og verkefnaskil í gegnum netið (moodle). Ekki láta þetta framhjá ykkur fara. Hér að neðan eru tvö myndbönd sem gefa innsýn í starfið sem fram fer í MTR og hvetjum við þá sem hafa áhuga á að horfa á þau og hafa samband ef einhverjar spurningar eru. Útivist: https://www.youtube.com/watch?v=8uOJJL8oMK8 Fjallamennska: https://www.youtube.com/watch?v=nBM-n6mlq8U&list=PLo-ay_RwYdJeZoCJSSkfTbubgSdrf72zF&index=2 Hægt er að sækja um á heimasíðu skólans https://www.mtr.is/is/fjarnam/skraning-i-fjarnam eða senda tölvupóst á birgitta@mtr.is
Lesa meira

Áhrif og stuðningur á vinnudegi

Monica Johansson frá Gautaborgarháskóla fræddi starfsmenn um umhyggju og stuðning við nemendur með sérþarfir. Rannsóknir hennar sýna að ólíkar aðferðir við að veita þessa þjónustu skila mismunandi árangri. Það virkar vel að kennarar hafi miklar væntingar til nemenda. Víðtækari stuðningur en í kennslustundum virðist líka virka vel. Staðsetning og ýmis ytri tákn í kennslustofunni og skólahúsnæðinu almennt virðast líka hafa nokkur áhrif. Það virkar vel að sýna Nóbelsverðlaunahafa og önnur tákn um virðingu og þýðingu náms og námsgreina. Valgerður S. Bjarnadóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson fjölluðu um hvers konar áhrif nemendur geta haft á eigið nám. Rannsóknir sýna að það hefur jákvæð áhrif á skuldbindingar og árangur nemenda ef þeir hafa áhrif á námið sitt. En rannsóknir benda líka til þess að almennt hafi nemendur lítil áhrif. Kennarar eru ekki alltaf klókir að draga nemendur inn og nemendur upplifa oft að formlegu leiðirnar til að hafa áhrfi séu ekki raunverulegar. Valgerður sagði frá því að í víðtækri könnun í níu framhaldsskólum hefði verið algengt að nemendur segðu bara „við höfum aldrei hugsað um þetta“. Þetta sýnir að ala þarf nemendur upp í því að hafa áhrif. Í einum skólanna í könnuninni var var það greinilega hefðin og einn nemandi svaraði spuringunni um áhrif nemenda á þá leið að það væri „meira svona eins og við séum að vinna saman ... við erum að fara saman að sameiginlegum markmiðum“. En í öðrum skólum kom rannsakendum á óvart hve nemendur voru fjarri því að gera sér grein fyrir möguleikum til að hafa áhrif á námið sitt. Miklar og fjörugar umræður urðu í starfsmannahópnum í framhaldi af fyrirlestrunum. Síðari hluta vinnudagsins var fjallað um framtíðina eins og hún birtist á margvíslegum erlendum fræðslu- og kennslumyndböndum og hvernig við ættum sem kennarar og skólastofnun að bregðast breytingum á komandi tíð. Kennararnir Birgitta Sigurðardóttir og Inga Eiríksdóttir hafa fengið styrk úr Sprotasjóði til að þróa áfangann vélmannafræði sem er á þessu sviði og getur gagnast nemendum á öllu brautum skólans og jafnvel líka nemendum í efri bekkjum grunnskóla. Að auki var eins og venjulega á vinnudögum rætt um það sem fólki var efst í huga eftir önnin og hvað helst væri framundan á haustönninni.
Lesa meira

Fjórtánda brautskráningin

Sautján nemendur brautskráðust frá Menntaskólanum á Tröllaskaga í morgun og hafa þá 160 lokið námi á þeim sjö árum sem skólinn hefur starfað. Sjö þeirra sem brautskráðust í morgun voru fjarnemar og voru þeir allir viðstaddir utan einn sem býr í Ameríku. Þetta er stærsti fjarnemahópur sem skólinn hefur útskrifað. Á vorönn voru nemendur við skólann um 340 og hafa aldrei verið fleiri. Þar af voru fjarnemar um 240. Átta nemendur útskrifuðust af félags- og hugvísindabraut, tveir af íþróttabraut – íþróttasviði, tveir af náttúruvísindabraut, tveir af listabraut – myndlistarsviði og tónlistarsviði, tveir af starfsbraut og einn lauk viðbót við starfsnám til stúdentsprófs.
Lesa meira

Útskrift laugardaginn 20. maí kl. 11:00

Vorútskrift skólans verður laugardaginn 20. maí kl. 11:00 í Ólafsfjarðarkirkju. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Lesa meira

Fjölbreytt Vorsýning

Vorsýning skólans hófst með tónlistaratriðum. Sýningin einkennist af litagleði og gefur ágætt yfirlit yfir starfið í skólanum í vetur. Listabrautarnemar sýna meðal annars stór og tjáningarrík málverk og fjölbreyttar portrettmyndir. Það gefur til dæmis að líta portrett af Grími Grímssyni, lögregluforingja. Nemendur á starfsbraut koma sterkir inn með stuttmynd, nokkur þrívíddarverk og ljósmyndir úr starfi brautarinnar síðustu ár. Margvísleg og frumleg verkefni nemenda á náttúrufræðibraut fylla kennslustofu brautarinnar. Myndbönd nema í ferðalandafræði sýna ferðamöguleika sem nemendur hafa kynnt sér og skipulagt út í ystu æsar. Það kom þeim á óvart hvað hægt er að ferðast ódýrt ef maður kann að leita á netinu og veit hvað maður vill. Meðal verkefna er interrail ferð um Evrópu, bakpokaferð um Asíu og safariferð til Afríku. Nemar í jákvæðri sálfræði sýna efni um tilfinningar og hvernig hægt er að örva með skipulegum hætti jákvæðar tifinningar svo sem gleði, stolt, ást og þakklæti. Nemendur í frumkvöðlafræði völdu sér stað og markaðssettu hann. Eitt skilyrðanna í markaðssetningunni var að búa til minjagrip og eru nokkrir þeirra á sýningunni. Reyndur skólamaður sem skoðaði sýninguna sagðist sjá þess merki að leitað væri eftir styrkleikum nemenda í skólastarfinu. Starfsmenn og nemendur þakka þeim fjölmörgu gestum sem þegar hafa skoðað sýninguna og vekja athygli á því að hún verður opin frá 9:00-16:00 frá 15. – 19. maí.
Lesa meira