Júlíus og Tryggvi mynd GK
Fimmtudaginn 15. febrúar fengum við tvo unga tónlistarmenn úr Fjallabyggð í heimsókn í skólann og glöddu þeir nemendur og starfsfólk í matarhléinu með ljúfum tónum. Þetta voru tvíburabræðurnir Júlíus og Tryggvi Þorvaldssynir sem hafa vakið töluverða athygli að undanförnu fyrir vandaðan söng og gítarleik. Þeir eru í 9. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar auk þess að stunda tónlistarnám við Tónlistarskólann á Tröllaskaga og hafa komið víða fram undanfarna mánuði. Þeir komu m.a. fram á svæðistónleikum Nótunnar á Norður- og Austurlandi, sem fram fór á Akureyri á dögunum og var atriði þeirra eitt af þeim sem hrepptu þátttökurétt á lokahátíð Nótunnar sem fram fer í Hörpu 4. mars nk. Bræðurnir hafa komið fram á ýmsum skemmtunum í Fjallabyggð að undanförnu og fyrir stuttu hituðu þeir upp fyrir hljómsveitina Ný Dönsk þegar hún hélt tónleika á Kaffi Rauðku á Siglufirði.
Á næstu vikum mun fleira listafólk af svæðinu láta ljós sitt skína í skólanum, nemendum og starfsfólki til yndisauka.