Fréttir

Kvöldverður á Klöru

Lokaverkefni nemenda í áfanganum „matur og menning“ er vegleg matarveisla á Kaffi Klöru. Þetta verður hlaðborð þar sem meðal rétta verður kjötsúpa og kjúklingasúpa, einnig hægeldað lambalæri, litlar kjúklingabollur og djúpsteiktar rækjur með margvíslegu meðlæti. Eftirréttir verða marengs, skúffukaka og pönnukökur. Veislan hefst klukkan 19:00 annað kvöld, miðvikudagskvöld og stendur til klukkan 22:00. Ágóðinn rennur til Iðjunnar, vinnustofu fatlaðra á Siglufirði. Hægt er að skrá sig á viðburðinn á Fb-hópnum „Matarveisla á Kaffi Klöru á vegum nemendahóps úr MTR“.
Lesa meira

Aukið val – fjölþjóðlegt verkefni

MTR tekur þátt í Nordplus Horizontal verkefni sem snýst um að kennarar og skólastjórnendur skiptist á upplýsingum um gagnlegar aðferðir við að auka val nemenda í framhaldsskólum og sveigjanleika í námi. Tveir háskólar og sjö framhaldsskólar í Eistlandi, Finlandi, Lettlandi og á Íslandi taka þátt í verkefninu. Hópur kennara frá samstarfslöndunum þremur heimsótti MTR í vikunni. Lára Stefánsdóttir skólameistari sagði þeim frá tilurð skólans og námsskránni sem er sveigjanleg og veitir mikið frelsi við skipulagningu námsins. Einnig ræddi hún þær samfélagsbreytingar sem framundan eru og huga þarf að í námsframboði og vinnubrögðum. Inga Eiríksdóttir, stærðfræðikennari kynnti kennslu og nám í skólanum og sýndi myndbönd þar sem nemendur njóta sín við ólík viðfangsefni úti og inni. Síðan kynntu samstarfsskólarnir áherslur í sínum námsskrám og aðferðir við að gera námið sem fjölbreyttast. Meðal þess sem bar á góma var fjarnám og upplýsingatækni, viðurkenning eða mat á fyrra námi og starfi, samstarf skóla og annarra menntastofnana og þátttaka nemenda í að móta námsskrá skóla og skipuleggja eigin námsferil.
Lesa meira

Naustaskólnemar í heimsókn

Vænn hópur nemenda í tíunda bekk Naustaskóla heimsótti MTR í vikunni til að kynna sér nám og aðstöðu í skólanum. Hópurinn notaði tækifæri til að skoða sig um víðar í Fjallabyggð og fór meðal annars á Síldarminjasafnið á Siglufirði. Í MTR voru krakkarnir áhugasamir um tölvur og tæknina alla sem hér er notuð. Einnig vakti nám á útivistarbraut mikla athygli sumra nemenda. Þá þótti aðstaða nemenda álitleg.
Lesa meira

Heimsókn í Listhúsið

Nemendur í myndlist og nemendur á starfsbraut gerðu sér ferð í Listhús og skoðuðu áhugaverða sýningu bandarísku listakonunnar Alana LaPoint. Hún hefur dvalið í Listhúsinu frá því byrjun febrúar og var sýningin ákveðinn lokapunktur á dvöl hennar hér á landi. Listakonan fræddi nemendur um tilurð sýningarinnar og svaraði spurningum nemenda sem lýstu yfir hrifningu sinni og almennri ánægju með verkin hennar.
Lesa meira

Stærðfræðikeppni í tuttugu ár

Úrslit í stærðfræðikeppni Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Menntaskólans á Tröllaskaga og níundu bekkja í grunnskólum á Norðurlandi vestra og Tröllaskaga fór fram í Ólafsfirði í dag. Í fyrsta sæti varð Hildur Heba Einarsdóttir í Árskóla á Sauðárkróki. Jódís Helga Káradóttir í Varmahlíðarskóla í Skagafirði varð í öðru sæti og Styrmir Þeyr Traustason í Dalvíkurskóla í þriðja. Vegleg verðlaun voru veitt fyrir þessi þrjú sæti. Keppnin var jöfn og spennandi og keppendur allir sjálfum sér og skólum sínum til sóma. Þetta er í tuttugasta sinn sem keppnin er haldin.
Lesa meira

Gestir frá Þelamerkurskóla

Hópur starfsmanna Þelamerkurskóla í Hörgárbyggð kynti sér nám og starf í MTR í dag. Þeir vilja gjarnan að nemendur sínir kynnist námsframboði skólans. Gestirnir voru áhugasamir um noktun upplýsingatækni í MTR en sjálfir eru þeir í átaki á tæknisviðinu. Einnig þótti þeim merkilegt að hægt væri að ljúka stúdentsprófi af brautum þar sem íslenska og stærðfræði eru ekki algerar grundvallargreinar. Þelamerkurskóli er ágætlega í sveit settur á Laugalandi í Hörgárdal og eru nemendur þar 75 á þessu skólaári.
Lesa meira

Á skíðum í hugleiðslujóga

Nemendur í áfanganum útivist í snjó lögðu loksins upp í leiðangur á fjallaskíðum og gönguskíðum í gær. Hópnum var skipt í tvennt og fór helmingurinn á fjallaskíðum upp Hólshyrnu í Ólafsfirði með Tómasi Atla Einarssyni kennara og hinn helmingurinn fór á gönguskíðum inn fyrir Hóla í Skeggjabrekkudal. Nemendur áttu góða stund úti í náttúrunni og nýttu kyrrðina til hins ítrasta og prófuðu hugleiðslujóga undir berum himni. Nemendur stóðu sig með prýði enda hörkuduglegir þó svo að það hafi setið í þeim þreyta eftir páskafrí. Næst á dagskrá hjá þeim er svo að ganga með fullbúinn bakpoka á fjallaskíðum upp í skálann Mosa sem er uppi á heiði, gista þar eina nótt og skíða svo heim.
Lesa meira

Innritun í fjarnám stendur yfir

Innritun eldri nemenda stendur yfir og þar með fjarnema fyrir haustönn 2017. Þegar áfangar eru fullir er þeim lokað svo það er um að gera að vera snemma á ferðinni. Staðnemar skrái sig á www.menntagatt.is og hafa forgang, fjarnemar skrá sig á heimasíðu skólans undir „Fjarnám“
Lesa meira

Undraheimur efnahvarfanna

Í áfanganum EFNA2EE05 læra nemendur um atóm, frumefni og efnasambönd. Þar er farið uppbyggingu atómsins og hvernig hún ákveður staðsetningu efnisins í lotukerfinu. Efnahvörf sýna hvernig atóm mismunandi frumefna haga sér þegar þau hitta atóm annarra frumefna. Þetta getur verið spennandi að læra um með því að gera tilraunir. Myndirnar sem fylgja þessari frásögn sýna hvað gerist þegar mismunandi tegundum af sykri er blandað í brennisteinssýru. Nemendur fengu fyrst að giska á hvað myndi gerast. Síðan var venjulegum sykri blandað í sýruna. Þá var komið að því að athuga hvort atburðarásin yrði önnur ef notaður væri flórsykur í stað venjulegs sykurs en þetta er alveg sama efni á lítillega breyttu formi. Í tilviki flórsykursins gerðust efnahvörfin svo hratt að nemendur misstu af atburðinum og Vera Sólveig Ólafsdóttir kennari varð að endurtaka tilraunina.
Lesa meira

Gestir úr Síðuskóla

Liðlega fjörutíu nemendur í 10. bekk Síðuskóla á Akureyri kynntu sér nám og aðstöðu í MTR í morgun. Hópurinn var áhugasamur, ekki síst um einstakar brautir svo sem útivistarbraut og einnig að hér eru fá próf og engin lokapróf. Gestirnir skoðuðu myndlistarstofuna, tónlistarstofuna, efnafræðistofuna og útikennslustofuna. Þeir fengu líka að sjá myndbönd sem sýna nemendur í útivistaráföngum klifra í klettum, renna sér á skíðum, brimbrettum og hundasleðum. Einnig ýmis skemmtileg myndbönd sem nemendur MTR hafa gert og skilað í áföngum á borð við ensku og inngang að réttarvísindum. Inga Eiríksdóttir og Vera Sólveig Ólafsdóttir sáu um og skipulögðu móttöku gestanna úr Síðuskóla.
Lesa meira