Nemendur í áfanganum útivist í snjó lögðu loksins upp í leiðangur á fjallaskíðum og gönguskíðum í gær. Hópnum var skipt í tvennt og fór helmingurinn á fjallaskíðum upp Hólshyrnu í Ólafsfirði með Tómasi Atla Einarssyni kennara og hinn helmingurinn fór á gönguskíðum inn fyrir Hóla í Skeggjabrekkudal. Nemendur áttu góða stund úti í náttúrunni og nýttu kyrrðina til hins ítrasta og prófuðu hugleiðslujóga undir berum himni. Nemendur stóðu sig með prýði enda hörkuduglegir þó svo að það hafi setið í þeim þreyta eftir páskafrí. Næst á dagskrá hjá þeim er svo að ganga með fullbúinn bakpoka á fjallaskíðum upp í skálann Mosa sem er uppi á heiði, gista þar eina nótt og skíða svo heim. Myndir