Forritarar framtíðarinnar mynd Jónína Kristjánsdóttir
Á mánudögum koma nokkrir nemendur úr 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar í valtíma hjá Ingu stærðfræðikennara MTR. Tímarnir eru á vegum Grunnskólans en nemendur mæta í MTR og nýta ýmislegt dót sem þar er til. Þeir hafa í vetur prófað Ozobot, Sphero, little bits, Lego WeDo og eru nú að vinna með Lego Mindstorm. Einnig hafa þeir fengið að prófa retró leikjatölvu skólans (Atari) og VR græjurnar. Í dag var samt tekin smá pása frá Lego Mindstorm vinnunni og prufuð nokkur forritunar öpp í iPad. Meðal appa sem þeir þeir gátu prófað voru Move the Turtle, Kodable, Lightbot Code Hour, Boogie Bot, Robot School og Box Island. Markmiðið með þessum prufum var að gefa kennara smá munnlega skýrslu um hvernig þessi forrit höfðuðu til þeirra, hvert þeirra væri skemmtilegast og hvað aldri þau gætu hentað. Það var greinilegt að Lightbot Code Hour höfðaði best til þeirra og í lok tímans voru þeir allir komnir á kaf í Lightbot.
Lightbot er mjög gott app sem kennir börnum og unglingum grunnhugtök forritunar. Appið er afar hentugt öllum þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í forritun og er fyrir nemendur allt frá 1. bekk og upp í 10. bekk og jafnvel eldri. Það er því alveg ástæða fyrir mömmu og pabba eða jafnvel afa og ömmu að ná sér appið. Tilgangurinn þess er eins og áður segir að kenna grunnhugtök forritunar s.s. skipanir, aðgerðir og endurtekningar og gerir forritið það vel.