Sex nemendur MTR tóku þátt í samstarfsverkefninu HELP í síðustu viku. Auk norskra og íslenskra þátttakenda eru nemendur frá Litháen og Spáni með í verkefninu. Viðfangsefnið var vistvænar afurðir og vistvænar merkingar. Íslensku nemendurnir greindu frá því að hér væru ekki vistvænar merkingar sem hægt væri að taka mark á en þátttakendur frá hinum ríkjunum sögðu að lög giltu um slíkar merkingar hjá sér. Íslendingarnir greindu meðal annars frá Brúneggjamálinu og að þeir teldu að bæta þyrfti stöðuna í þessum málum hér á landi.
Á dagskránni var heimsókn á vistvænan búgarð þar sem hægt var að skoða dýrin í návígi og kynna sér allan aðbúnað þeirra. Hópurinn heimsótti líka dýragarð þar sem einn íslendingurinn varð fyrir því að lamadýr hrækti í augað á honum. Listir og menning sátu ekki á hakanum og var heimsókn í listasafn á dagskránni, einnig danskvöld og svo elduðu þátttakendur hvers lands einhvern þjóðlegan rétt og hópurinn naut sameiginlegrar máltíðar. MTR-nemar elduðu kjötsúpu og segja að hún hafi slegið í gegn. Hjá þeim vakti athygli rétturinn frá Litháen – en það voru kleinur alveg eins og þær íslensku nema hvað flórsykri hafði verið stráð yfir þær. Lokapunktur verkefnisins var sjónvarpsþáttur sem nemendur gerðu og sendu út beint á föstudeginum en norski skólinn er vel búinn tækum til slíks. Þáttinn má sjá hér. Hundasleðaferð var sá atburður sem stóð uppúr hjá Íslendingunum.Myndir