Kolbrún mynd GK
Val á framhaldsskóla er stundum flókin ákvörðun. En svo var ekki hjá Kolbrúnu Svöfu Bjarnadóttur sem segist hafa valið MTR vegna þess að hægt er að læra listljósmyndun og vegna þess að lítið er um próf. Kolbrún er frá Grímsey en tók síðustu tvo bekki grunnskólans á Akureyri því það var ekki hægt í eynni. Foreldrarnir eru fluttir til Akureyrar en fjölskyldan er í Grímsey á sumrin, í jólafríinu og eiginlega alltaf þegar hægt er segir Kolbrún. Hún þekkti engan þegar hún byrjaði í MTR í haust en segist bara hafa verið ein í þrjá daga, þá hafi hún eignast vini og eigi fullt af kunningjum. Hún segist vera ótrúlega glöð í skólanum og líða vel. Hún kvartar heldur ekki yfir því að hafa eytt tveimur klukkustundum á dag í allt haust í rútu á milli Akureyrar og Ólafsfjarðar. En nú fækkar ferðunum því hún heldur til á Siglufirði hjá systur sinni og kærasta hennar – sem hófu nám í MTR um áramótin. Kolbrún Svafa hefur tekið mikið af myndum í Grímsey og eru sumar svo góðar að atvinnumenn í faginu hafa sýnt áhuga á að nota þær. Hún segist elska Grímsey og ætla að búa þar í framtíðinni ef byggð helst í eynni.