Nemendur í áfanganum Útivist í snjó ÚTIV2ÚS05 æfðu sig á Skíðasvæðinu í Skarðsdal á Siglufirði við frábærar aðstæður á fimmtudag. Þetta var fyrsta ferð á önninni en þær verða nokkrar. Egill Rögnvaldsson, umsjónarmaður skíðasvæðisins upplýsti krakkana um framkvæmdir og þær breytingar sem hafnar eru. Meðal annars verður neðsta lyftan færð, byggja þarf nýjan skála, koma töfrateppi fyrir og fleira. Svæðið mun þannig verða öruggara og barnvænna. Krakkarnir stóðu sig mjög vel, tveir höfðu aldrei stigið á skíði áður en gáfust ekki upp og voru farnir að skíða eftir stuttan tíma. Í heild stóð skíðaæfingin í þrjár klukkustundir. Áfanginn útivist í snjó er að mestu verklegur, nemendur kynnast undirstöðuatriðum í ísklifri, skíðun (alpa, fjalla og göngu), snjóbrettun, gerð snjóhúsa og fjallamennsku. Kennarar eru Kristín Anna Guðmundsdóttir, Gestur Hansson og Tómas Atli Einarsson.