Valgerður S. Bjarnadóttir mynd LS
Monica Johansson frá Gautaborgarháskóla fræddi starfsmenn um umhyggju og stuðning við nemendur með sérþarfir. Rannsóknir hennar sýna að ólíkar aðferðir við að veita þessa þjónustu skila mismunandi árangri. Það virkar vel að kennarar hafi miklar væntingar til nemenda. Víðtækari stuðningur en í kennslustundum virðist líka virka vel. Staðsetning og ýmis ytri tákn í kennslustofunni og skólahúsnæðinu almennt virðast líka hafa nokkur áhrif. Það virkar vel að sýna Nóbelsverðlaunahafa og önnur tákn um virðingu og þýðingu náms og námsgreina.
Valgerður S. Bjarnadóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson fjölluðu um hvers konar áhrif nemendur geta haft á eigið nám. Rannsóknir sýna að það hefur jákvæð áhrif á skuldbindingar og árangur nemenda ef þeir hafa áhrif á námið sitt. En rannsóknir benda líka til þess að almennt hafi nemendur lítil áhrif. Kennarar eru ekki alltaf klókir að draga nemendur inn og nemendur upplifa oft að formlegu leiðirnar til að hafa áhrfi séu ekki raunverulegar. Valgerður sagði frá því að í víðtækri könnun í níu framhaldsskólum hefði verið algengt að nemendur segðu bara „við höfum aldrei hugsað um þetta“. Þetta sýnir að ala þarf nemendur upp í því að hafa áhrif. Í einum skólanna í könnuninni var var það greinilega hefðin og einn nemandi svaraði spuringunni um áhrif nemenda á þá leið að það væri „meira svona eins og við séum að vinna saman ... við erum að fara saman að sameiginlegum markmiðum“. En í öðrum skólum kom rannsakendum á óvart hve nemendur voru fjarri því að gera sér grein fyrir möguleikum til að hafa áhrif á námið sitt. Miklar og fjörugar umræður urðu í starfsmannahópnum í framhaldi af fyrirlestrunum.
Síðari hluta vinnudagsins var fjallað um framtíðina eins og hún birtist á margvíslegum erlendum fræðslu- og kennslumyndböndum og hvernig við ættum sem kennarar og skólastofnun að bregðast breytingum á komandi tíð. Kennararnir Birgitta Sigurðardóttir og Inga Eiríksdóttir hafa fengið styrk úr Sprotasjóði til að þróa áfangann vélmannafræði sem er á þessu sviði og getur gagnast nemendum á öllu brautum skólans og jafnvel líka nemendum í efri bekkjum grunnskóla. Að auki var eins og venjulega á vinnudögum rætt um það sem fólki var efst í huga eftir önnin og hvað helst væri framundan á haustönninni.