Fjölbreytt Vorsýning

Vorsýning mynd GK
Vorsýning mynd GK

Vorsýning skólans hófst með tónlistaratriðum. Sýningin einkennist af litagleði og gefur ágætt yfirlit yfir starfið í skólanum í vetur. Listabrautarnemar sýna meðal annars stór og tjáningarrík málverk og fjölbreyttar portrettmyndir. Það gefur til dæmis að líta portrett af Grími Grímssyni, lögregluforingja. Nemendur á starfsbraut koma sterkir inn með stuttmynd, nokkur þrívíddarverk og ljósmyndir úr starfi brautarinnar síðustu ár. Margvísleg og frumleg verkefni nemenda á náttúrufræðibraut fylla kennslustofu brautarinnar. Myndbönd nema í ferðalandafræði sýna ferðamöguleika sem nemendur hafa kynnt sér og skipulagt út í ystu æsar. Það kom þeim á óvart hvað hægt er að ferðast ódýrt ef maður kann að leita á netinu og veit hvað maður vill. Meðal verkefna er interrail ferð um Evrópu, bakpokaferð um Asíu og safariferð til Afríku. Nemar í jákvæðri sálfræði sýna efni um tilfinningar og hvernig hægt er að örva með skipulegum hætti jákvæðar tifinningar svo sem gleði, stolt, ást og þakklæti. Nemendur í frumkvöðlafræði völdu sér stað og markaðssettu hann. Eitt skilyrðanna í markaðssetningunni var að búa til minjagrip og eru nokkrir þeirra á sýningunni. Reyndur skólamaður sem skoðaði sýninguna sagðist sjá þess merki að leitað væri eftir styrkleikum nemenda í skólastarfinu. Starfsmenn og nemendur þakka þeim fjölmörgu gestum sem þegar hafa skoðað sýninguna og vekja athygli á því að hún verður opin frá 9:00-16:00 frá 15. – 19. maí.