Fréttir

Vetrarútilega

Útilega í október krefst góðs búnaðar. Ella getur kuldi, vindur og úrkoma gert lífið nánast óbærilegt. Nemendur í fjallamennsku- og útivistaráföngum fengu að reyna þetta um helgina þegar þeir gengu í óbyggðum í Héðinsfirði og eyddu þar einni nótt. Tjaldað var í grennd við gamalt slysavarnarskýli og kom sér sannarlega vel að geta skriðið þar í skjól, snætt nestið og yljað sér á tánum.
Lesa meira

List í miðannarviku

Miðannarvikan hófst með trukki í dag þegar nemendur í myndlistarvali endurgerðu að ákveðnu leyti gamlan gjörning. Hann var sóttur var í greipar FLUXUS hreyfingarinnar sem var upp á sitt besta í upphafi sjöunda áratugar síðustu aldar. Áhrifa þessarar stefnu gætir enn í listum nútímans og fengu nemendur smá nasasjón af því er þeir endurgerðu tónlistargjörning með verulega óvenjulegum hljóðfærum. Vatni var hellt úr mismunadi ílátum í önnur ílát úr nokkurri hæð og skapaði bunan milli íláta tónlistina. Gjörningurinn stóð þar til vatnið kláraðist. Leiðbeinandi í sköpuninni var Bergþór Morthens, myndlistarmaður.
Lesa meira

Fjallamennska í Hestsskarði

Þótt sumarið væri hlýtt eru enn vænir skaflar í Hestsskarði, á gömlu gönguleiðinni milli Héðinsfjarðar og Siglufjarðar. Nemendur og kennarar í fjallamennsku voru þar á ferð um síðustu helgi og upplifðu óvenjulega stund í skarðinu þegar nýsnævi gusaðist yfir þá af sköflunum eins og kókoskurl. Rúnar Gunnarsson segir að þetta hafi verið afar sérstakt. Hestsskarð er í um 600 metra hæð og fékk hópurinn þar bjart og fallegt veður eins og myndirnar bera með sér.
Lesa meira

Vertu sjóræningi – í eigin lífi!

Stundum þarf kjark og hugrekki til að taka stjórnina í eigin lífi. Fólk leggur upp í lífssiglinguna með ólíka hæfileika og ólík markmið en flestir eiga sér draum um hamingjuríkt líf. Gott getur verið að haga sér eins og sjóræningi ... og leita að fjársjóðum í eigin lífi. Þetta sögðu Ida Semey og Vera Sólveig Ólafsdóttir á geðræktarsamkomu skólans í Tjarnarborg í dag.
Lesa meira

Ræktum geðheilsuna

Við tökum geðræktardaginn snemma og höldum upp á hann á morgun, miðvikudag, í Tjarnarborg. Kristján M. Magnússon, sálfræðingur skólans flytur fyrirlestur og kennararnir Ida Semey og Vera Sólveig Ólafsdóttir halda erindi. Tónlist milli talmálsliða léttir lundina. Dagskráin er hluti af verkefninu „heilsueflandi framhaldsskóli“ en þema skólaársins er geðrækt. Í því er lögð áhersla á að bæta líðan nemenda og starfsmanna. Samkoman hefst klukkan 11:00.
Lesa meira

Starfskynning í Mánabergi

Eins og fyrr hefur verið frá sagt eru nemendur á starfsbraut að kynna sér ýmsar hliðar atvinnulífsins á þessari önn. Hópurinn skoðaði Mánaberg, togara Rammans við bryggju á Siglufirði í gær. Mesta athygli vakti hvað lítið pláss var í skipinu neðanþilja og þröng vinnuaðstaða áhafnarinnar.
Lesa meira

Sjósund og sviðalappir

Í smábátahöfninni í Ólafsfirði eru aðstæður ákjósanlegar til sjósunds þegar átt er suðlæg og sjórinn heilnæmur. Þannig stóð á í gær og hiti í sjónum var tíu stig. Nemendur í útivistaráfanga fóru með kennara sínum, Gesti Hanssyni, og tóku létta æfingu. Gestur segir að kuldasjokkið gangi oftast hratt yfir, ef fólk nái að anda rólega telja upp að þrjátíu áður en það stekkur upp úr.
Lesa meira

Offita gæludýra

Þeir sem stofnuðu líftæknifyrirtækið Prímex á Siglufirði árið 1997 hafa tæplega búist við því að það ætti eftir að selja framleiðslu sína eigendum allt of feitra gæludýra. En það er raunin. Í um það bil hálft ár hefur verið í boði í Bandaríkjunum framleiðsluvara sem á að gera eigendum dýranna fært að megra þau án þess að minnka fæðuskammtinn.
Lesa meira

Tungumálatréð

Nemendur í listgreinum gróðursettu tungumálatré á vegginn í anddyri skólans í morgun. Tilefnið er evrópski tungumáladagurinn sem er í dag. Þá er vakin athygli á fjölbreyttum tungumálum sem töluð eru í álfunni. Nemendur í dönsku, ensku og spænsku ætla næstu daga að laufga tréð með hnyttni og kveðjum á ýmsum málum.
Lesa meira

Að koma aflanum í verð

Engin þjóð nýtir fisk betur en Íslendingar og nýtingin batnaði með kvótakerfinu. Þetta sagði Andri Viðar Víglundsson sjómaður á Kleifaberginu nemendum í Tröllaskagaáfanga. Andri Viðar skýrði skipulag og vinnuferla um borð í togara með aðstoð Grétars Áka Bergssonar nemanda í áfanganum. Myndband sem Grétar Áki gerði sýnir veiðar, vinnslu og frágang afla í Mánaberginu.
Lesa meira