Feed

Áfram til jafnréttis

Sextán framhaldsskólar vítt og breitt um landið tóku þátt í March Forward-herferð UN Women á Íslandi með samstöðugjörningi á hádegi í gær. Gjörningurinn fólst í því að ganga nokkur skref afturábak, til merkis um bakslagið í jafnréttismálum síðustu ár, stoppa, sem tákn um að nú sé nóg komið og ganga svo rösklega áfram, því það er eina leiðin fyrir samfélög til að vaxa og dafna. Að frumkvæði nemendafélagsins Trölla tók hópur nemenda og starfsfólks MTR þátt til að leggja þessu þarfa málefni lið.
Lesa meira

Kynning á Alþjóðaviku NCL í Skotlandi

Á dögunum heimsóttu Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, aðstoðarskólameistari MTR, og Inga Eiríksdóttir, kennari, skólann New College Lanarkshire (NCL) í Skotlandi í tilefni af árlegri alþjóðaviku skólans. Voru þær þar í boði NCL en skólarnir hafa verið í samstarfi á undanförnum árum. Gestir í alþjóðavikunni komu víða að; frá Brasilíu, Egyptalandi, Filippseyjum, Hollandi, Ítalíu, Kína og Íslandi. Fluttar voru kynningar um alþjóðasamstarf og kynntu okkar konur MTR og mikilvægi alþjóðaverkefna í starfi skólans. Kynningarnar voru frá bæði framhaldsskólum og háskólum og þótti okkar fulltrúum áhugavert að heyra hvernig ólíkir skólar nýta sér alþjóðasamstarf til að auka fjölbreytni í skólastarfinu og valdefla nemendur. Einnig var boðið upp á kynningar í skólanum NCL, sem er með 3 mismunandi starfsstöðvar og mjög öflugt verknám. Fulltrúar okkar litu m.a. inn í upplýsingatæknitíma í tveimur starfsstöðvum þar sem Inga kynnti nemendum fyrirkomulag náms og kennslu hjá okkur. Einnig heimsóttu þær starfsbraut skólans sem er mjög stór og með fjölbreytta starfsemi. Var sú heimsókn mjög áhugaverð sem ferðin í heild sinni.
Lesa meira

Góð heimsókn frá Dalvíkurskóla

Í vikunni komu nemendur 10. bekkjar Dalvíkurskóla í heimsókn og kynntu sér hvernig náminu hjá okkur er háttað og hvernig lífið gengur fyrir sig í skólanum. Námsráðgjafi skólans, Hólmar Hákon, bauð þessa tilvonandi framhaldsskólanema velkomna og flutti stutta kynningu áður en hópnum var skipt upp í smærri einingar sem fóru á milli stöðva í skólahúsinu. Þeirra biðu ýmis verkefni og kynningar til að fá innlit í skólastarfið. Fulltrúar nemendaráðs sögðu frá félagsstarfi nemenda, Inga Eiríksdóttir stýrði ratleik þar sem gestirnir fóru um skólahúsið og skoðuðu ýmis tæki og tól sem skólinn hefur yfir að ráða, Ida Semey sá um klippimyndagerð þar sem viðfangsefnið var hamingja í tilefni af alþjóða hamingjudeginum sem var í vikunni, nemendur skólans tóku á móti hópunum í tölvustofunni þar sem var í boði að fara í tölvuleiki og prófa sýndarveruleikagræjur og Hólmar Hákon fór yfir skipulag námsins og skólastarfsins á síðustu stöðinni. Að loknu hópastarfinu var boðið upp á pizzuveislu og þótti það ekki ónýtt. Var ekki annað að heyra og sjá en gestirnir hafi verið ánægðir með heimsóknina og einhverjir lýstu yfir áhuga á að koma hér til náms næsta haust. Þökkum við þessum líflega hópi fyrir komuna og að hafa lífgað upp á daginn hjá okkur.
Lesa meira

Hamingjan hún er best af öllu

Alþjóða hamingjudagurinn er á morgun, þann 20. mars, en við tókum forskot á sæluna og vorum með sannkallaða hamingjudagskrá í skólanum í dag. Menntaskólinn á Tröllaskaga er UNESCO-skóli og tekur sem slíkur þátt í nokkrum þeirra daga sem Sameinuðu þjóðirnar tileinka ákveðnum málefnum og er hamingjan eitt þeirra. Dagurinn var fyrst haldinn árið 2013 með það að markmiði að vekja athygli á hamingju og vellíðan sem mikilvægu markmiði fyrir einstaklinga og stjórnvöld um heim allan. Ýmsir viðburðir eru skipulagðir þennan dag til að vekja áhuga á mikilvægi hamingjunnar og létu nemendur og kennarar MTR ekki sitt eftir liggja. Dagskráin hófst með því að settur var í gang lagalisti sem innihélt lög um hamingjuna og hljómaði hann megnið af deginum í sal skólans. Hér að neðan má finna slóð á hann. Inga Eiríksdóttir, kennari skólans, hélt síðan fyrirlestur um mikilvægi hamingjunnar fyrir nemendur og ræddi um hvað við gætum gert til að auka hana. Nefndi hún þar atriði eins og að stunda reglubundna hreyfingu, hugleiðslu og slökun, að sýna þakklæti, vera dugleg að hrósa öðru, taka eftir öllu því góða sem verður á vegi okkar frekar en að einblína á það neikvæða og tala okkur sjálf ekki niður. Að fyrirlestrinum loknum völdu nemendur og kennarar þrjú orð sem þeir tengdu við hamingju og mynduðu fallegt orðaský sem fylgir í myndasafninu með fréttinni. Þá var kominn tími til að hreyfa sig og héldu nemendur í íþróttahúsið þar sem þeir tóku þátt í fjölbreyttri hreyfingu undir stjórn kennaranemanna Sunnevu Lindar og Patreks Darra sem eru í æfingakennslu við skólann þessar vikurnar. Góð næring á líkama og sál er að sjálfsögðu nauðsynleg til að rækta hamingjuna og voru slegnar tvær flugur í einu höggi í hádegishléinu þegar Hamingjubandið, hljómsveit nemenda og kennara, lék nokkur lög tengd þema dagsins meðan nemendur nutu matarins. Hljómsveitin var einmitt stofnuð á degi hamingjunnar í fyrra og var núna að koma fram í fimmta sinn. Misjafnt er þó hvernig hún er skipuð, að þessu sinni voru það nemendurnir Hlynur og Ólafur og kennararnir Bubbi og Tóti sem mynduðu hana. Heimsmarkmiðafána UNESCO var að sjálfsögðu flaggað við skólann í tilefni dagsins enda mörg heimsmarkmið sem tengdust dagskránni á þessum góða og sólríka degi.
Lesa meira

Fróðleg ferð til Lettlands

Vikuna 3. - 9. mars hélt hópur nemenda til Lettlands þar sem þeir héldu áfram þátttöku í Nordplus verkefni um menningararf. Verkefnið hófst sl. haust þegar nemendur frá Saldus vidusskola, í bænum Saldus í Lettlandi, heimsóttu okkur hér á Tröllaskaganum og kynntust íslenskum menningararfi. Var það m.a. gert með heimsóknum á söfn og setur í sveitarfélaginu auk þess sem nemendur veltu fyrir sér hvaða þýðingu menningararleifðir hefðu fyrir komandi kynslóðir, hvernig við gætum viðhaldið þeim og hvort menningararfleifðir gætu hjálpað til við að auka tengsl fólks með mismunandi bakgrunn. Lettnesku nemendurnir voru í heimagistingu hjá nemendum og starfsfólki MTR og fengu þannig nasasjón af lífinu í íslensku samfélagi.
Lesa meira

Skólameistari flutti fyrirlestur í Osló

Sú þekking og reynsla sem starfsmannahópur skólans býr yfir er mikil og má með sanni kalla hana auðlind. Kennarar og stjórnendur skólans hafa haldið fyrirlestra víða, innanlands sem utan, þar sem þeir fjalla um fjarkennslu og kennslumódel skólans og kennarar við skólann sinna einnig kennslu í upplýsingatækni við Háskólann á Akureyri. Á dögunum hélt Lára Stefánsdóttir, skólameistari, erindi á ráðstefnu í Osló þar sem umfjöllunarefnið var lýðfræðilegar breytingar og tæknileg tækifæri i framhaldsskólanámi. Ráðstefna for fram í ráðstefnuhöllinni Expo Rebel og var ætluð stjórnendum framhaldsskóla og sveitarfélaga. Tilgangur hennar var að setja á dagskrá hvaða afleiðingar lýðfræðilegar breytingar í sveitarfélögum hefðu á menntamál.
Lesa meira

Nemendur kynntu sér háskólanám

Háskólar landsins hafa um árabil starfað saman undir hatti Háskóladagsins og kynnt háskólanám fyrir framhaldsskólanemum og öðrum áhugasömum. Háskóladagurinn var haldinn á fjórum stöðum á landinu í ár og lauk í Háskólanum á Akureyri í dag, þann 12, mars. Allir sjö háskólar landsins standa að þessum degi og er tilgangurinn að kynna allt grunnháskólanám sem er í boði á landinu á einum vettvangi. Nemendur, kennarar og starfsfólk háskóla landsins eru þar tilbúin til að spjalla við gesti og fræða þá um hvaðeina sem lýtur að náminu og háskólalífinu.
Lesa meira

Öskudagurinn

Mörg börn komu í skólann og sungu fyrir nammi teknar voru myndir af sönghópunum og eru þær í myndaalbúmi hér á síðunni.
Lesa meira

Spennandi námskeið á Fuerteventura

Dagana 17. - 20. febrúar sátu tveir kennarar skólans og skólameistari námskeið á eyjunni Fuerteventura, sem er næst stærst Kanaríeyjanna og er um það bil 100 km undan norðurströnd Afríku. Námskeiðið kallaðist Sjálfbærni í kennslustofunni og í lífinu og var útbúið sérstaklega fyrir íslenska framhaldsskóla af Menningarfélaginu "Cuidando lo Nuestro" sem starfar á eyjunni. Kennarar og skólastjórnendur frá 5 íslenskum framhaldsskólum á landsbyggðinni og einum grunnskóla skráðu sig til leiks. Á námskeiðinu var hvatt til vistfélagslegrar nálgunar og ábyrgðar á náttúrunni, tengd saman staðbundin og alþjóðleg sjálfbærnimál og skoðað hvernig hægt væri að innleiða sjálfbærni og umhverfismennt í skólastarf í takti við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Lesa meira

Vöfflur í tilefni undirritunar

Samn­inga­nefnd­ir kenn­ara og sveit­ar­fé­laga skrifuðu undir samninga seint í gærkvöld og hefur þá öllum yfirstandandi og fyr­ir­huguðum verk­föll­um verið af­lýst. Samn­ing­ur­inn gild­ir til fjög­urra ára og skrifuðu öll aðild­ar­fé­lög Kenn­ara­sam­bands­ins undir hann. Í samningnum felst m.a. að vinna að virðismati á störfum kennara hefjist strax og þeir hafi verið samþykktir og stefnt sé að innleiðingu þess næsta haust. Kjarasamningurinn verður kynntur á næstu dögum og hann síðan borinn undir atkvæði félagsfólks. Þeir kennarar og annað starfsfólk MTR sem var í húsi í morgun fagnaði þessum málalyktum með vöfflum og tilheyrandi. Var létt yfir mannskapnum enda hefur óvissa síðustu vikna og mánaða reynt á.
Lesa meira