04.02.2025
Menntaskólinn á Tröllaskaga hefur ákveðið að fella niður staðbundna kennslu miðvikudaginn 05. og fimmtudaginn 06. febrúar vegna alvarlegar óveðurspár. Nemendur mæta í fjarkennslustofur samkvæmt stundaskrá.
Lesa meira
30.01.2025
AFS eru alþjóðleg sjálfboðaliða- og fræðslusamtök. Meginviðfangsefni þeirra eru nemandaskipti landa á milli og bjóða samtökin upp á þvermenningarleg námstækifæri þar sem hægt er að öðlast þá þekkingu, færni og skilning sem þarf til að vinna að réttlátari og friðsamari heimi. AFS samtökin hafa verið í fararbroddi á sviði námstækifæra erlendis fyrir ungt fólk um árabil og starfið er stutt og rekið af þjálfuðu starfsfólki og sjálfboðaliðum.
Lesa meira
29.01.2025
Í fyrstu kennslustund í hinu spennandi verkefni hér í skólanum sem miðar að því að auka tæknilæsi meðal íbúa Fjallabyggðar sem eru 60 ára og eldri vildi svo skemmtilega til að þrír ættliðir voru saman komnir í skólanum til að mennta sig. Hjónin Svava Björg Jóhannsdóttir og Björn Kjartansson mættu með símana sína til fyrstu kennslustundar og fengu tilsögn frá dótturdóttur sinni Guðrúnu Ósk Auðunsdóttur, sem er nemandi við MTR, um ýmis öpp í símanum og hvernig væri hægt að nota þau. Á sama tíma hafði dóttir hjónanna og móðir Guðrúnar, Birna Sigurveig Björnsdóttir, fengið afnot af öðru næðisrými skólans til að sinna námi sínu við Háskólann á Akureyri.
Við stóðumst ekki mátið og fengum þau til að stilla sér upp fyrir myndatöku.
Lesa meira
23.01.2025
Undanfarin ár hefur listafólki af nærsvæði skólans verið boðið að sýna verk sín í sal skólans og hafa nokkrar sýningar verið settar upp hvert skólaár. Nú er fyrsta sýningin á þessari önn komin upp og að þessu sinni leituðum við ekki langt því listamaðurinn er Bergþór Morthens sem kennt hefur listgreinar við skólann allt frá stofnun hans árið 2010.
Bergþór útskrifaðist frá myndlistardeild Myndlistaskólans á Akureyri árið 2004, sótti sér nokkrum árum síðar kennsluréttindi frá Háskóla Íslands og lauk svo mastersnámi í myndlist við Valand háskólann í Gautaborg í Svíþjóð árið 2015. Bergþór hefur haldið einkasýningar á Íslandi, Svíþjóð og í Rúmeníu og tekið þátt í samsýningum á Íslandi, Svíþjóð, Danmörku og Grikklandi.
Bergþór hefur verið búsettur í Gautaborg ásamt fjölskyldu sinni síðan hann lauk mastersnámi sínu þar. Áður bjuggu þau á Siglufirði og eiga þar ennþá húsnæði. Koma þau reglulega á heimaslóðir á sumrin og Bergþór einnig í nokkrar vikur hvern vetur til að kenna við skólann. Á öðrum tímum mætir hann til vinnu frá Gautaborg í gegnum nærveru sem hann getur keyrt um skólann og sagt nemendum til í gegnum hana. Bergþór er með vinnustofur í báðum löndum þar sem hann vinnur að list sinni. Hann var útnefndur bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2010.
Á þessari sýningu eru verk sem Bergþór hefur unnið að undanfarna mánuði en auk þeirra má sjá eldri verk eftir listamanninn í sal skólans, verk sem eru í eigu skólans
Lesa meira
20.01.2025
Í síðustu viku hófst spennandi verkefni í skólanum sem miðar að því að auka tæknilæsi meðal íbúa Fjallabyggðar sem eru 60 ára og eldri. Verkefnið býður upp á einstaklingsmiðaða kennslu þar sem nemendur við skólann sjá um leiðsögn undir handleiðslu Ingu Eiríksdóttur, kennara skólans. Kennslan fer fram á persónulegum nótum og áhersla er lögð á að mæta þörfum og áhuga hvers og eins þannig að þátttakendur geta lært á eigin hraða og fengið aðstoð við þau tæki og forrit sem þeir sjá sér hag í að nota í daglegu lífi.
Vel á annan tug eldra fólks mætti í fyrstu kennslustundina, sem var sl. fimmtudag. Það mátti greina smá taugatitring og óöryggi í byrjun, bæði hjá þeim eldri sem og þeim yngri, en það breyttist fljótt og andrúmsloftið varð hið ánægjulegasta þegar tilsögnin hófst. Inga hóf stundina á því að fara yfir tilgang og framkvæmd verkefnisins og síðan voru nemendur skólans paraðir við einn til tvo af eldri kynslóðinni til að segja þeim til. Snjallsímarnir voru fyrsta verkefni flestra í fyrstu lotu og algengstu viðfangsefni voru að sýna hvernig ætti að hreinsa út óþörf öpp, setja þau helstu á heimaskjá og spá í facebook. Var virkilega gaman að sjá kynslóðirnar spá í málin saman, eiga góðar og gagnlegar samræður og gleyma sér yfir viðfangsefnunum.
Markmið verkefnisins er að styrkja tæknifærni eldra fólks og auka sjálfstæði þeirra í notkun stafrænna lausna. Með því að efla tækniþekkingu skapast tækifæri til að auðvelda samskipti við fjölskyldu og vini, nýta sér þjónustu á netinu og taka þátt í samfélaginu á nýjan hátt.
Nemendur við Menntaskólann á Tröllaskaga fá einnig mikið út úr verkefninu. Þeir öðlast dýrmæta reynslu af kennslu og samskiptum við fólk á ólíkum aldri og fá tækifæri til að láta gott af sér leiða í samfélaginu. Þetta samspil kynslóða er stór þáttur í því að styrkja tengsl í Fjallabyggð og skapa jákvæða upplifun fyrir alla þátttakendur. Verkefnið er frábært dæmi um nýsköpun í menntun þar sem skólar og samfélög vinna saman að því að bæta lífsgæði íbúa.
Öllum íbúum Fjallabyggðar 60 ára og eldri er boðið að nýta sér þetta áhugaverða úrræði og eru kennslustundir á fimmtudögum kl. 13.15 - 14.15 fram á vorið á starfstíma skólans.
Lesa meira
15.01.2025
Mikilvægur liður í starfsþróun allra starfsstétta er endurmenntun þar sem aflað er nýrrar færni eða leitast við að styrkja þá færni sem þegar er til staðar. Í dag, á tímum mikilla framfara á sviði tækni og þekkingaröflunar, er þessi liður enn mikilvægari en áður og líklega réttara að tala um símenntun frekar en endurmenntun. Þau sem vinna við að mennta komandi kynslóðir þurfa sannarlega að vera á tánum og fylgjast með nýjustu straumum og stefnum í kennslufræðum sem og tækninýjungum sem nýtast í kennslu og námi.
Lesa meira
06.01.2025
Í byrjun árs sendum við öllum nær og fjær óskir um gleðilegt og farsælt nýtt ár og þökkum fyrir samstarf og samveru á liðnum árum. Í dag, 6. janúar, er fyrsti kennsludagur vorannar jafnt hjá staðnemum sem fjarnemum. Það er alltaf gaman þegar líf færist í skólann og kennslukerfi hans á ný eftir gott og verðskuldað frí. Líkt og áður hefur komið fram er skólinn yfirfullur; skráðir nemendur 572 talsins og ekki hægt að taka við fleirum þrátt fyrir mikla eftirspurn.
Í Innu sjá nemendur þá áfanga sem þeir eru skráðir í á nýrri önn og allir nemendur eiga að hafa fengið upplýsingar frá kennurum í tölvupósti hvernig þeir skrá sig í áfanga sína í kennslukerfinu Moodle. Fjarnemar geta haft samband við Birgittu umsjónarkennara sinn, birgitta@mtr.is, ef eitthvað er óljóst.
Nú er ekki eftir neinu að bíða heldur bretta upp ermar og hefjast handa. Fyrstu skil verkefna eru sunnudaginn 12. janúar. Hlökkum til að starfa með ykkur það sem eftir lifir vetrar.
Lesa meira
02.01.2025
Nám vorannar hefst 6. janúar 2025. Skráðir til náms eru 572 nemendur og því yfirfullt í skólanum og ekki hægt að taka fleiri nemendur inn, því miður, þrátt fyrir mikla eftirspurn.
Við hlökkum til annarinnar með okkar duglega starfsfólki og nemendum.
Lesa meira
22.12.2024
Tveir nemendur útskrifuðust frá skólanum með afburða námsárangur fyrr í vikunni, hvort tveggja stúlkur sem báðar eru fjarnemar. Okkur þótti fróðlegt að vita hvað það væri við kennsluna, námið í skólanum og skipulag þess sem hentaði þeim svo vel sem raun ber vitni og hvernig það kom til að þær sóttu um nám í MTR.
Lesa meira
21.12.2024
Tveir nemendur útskrifuðust frá skólanum með afburða námsárangur fyrr í vikunni, hvort tveggja stúlkur sem báðar eru fjarnemar. Okkur þótti fróðlegt að vita hvað það væri við kennsluna, námið í skólanum og skipulag þess sem hentaði þeim svo vel sem raun ber vitni og hvernig það kom til að þær sóttu um nám í MTR.
Lesa meira