Semidúx skólans Sædís Sól Róbertsdóttir

Sædís Sól
Sædís Sól

Tveir nemendur útskrifuðust frá skólanum með afburða námsárangur fyrr í vikunni, hvort tveggja stúlkur sem báðar eru fjarnemar. Okkur þótti fróðlegt að vita hvað það væri við kennsluna, námið í skólanum og skipulag þess sem hentaði þeim svo vel sem raun ber vitni og hvernig það kom til að þær sóttu um nám í MTR.

Báðar hafa vakið athygli kennara undanfarnar annir fyrir metnaðarfull verkefnaskil viku eftir viku, gagnrýna hugsun, áræðni og áhuga en einnig fyrir að fylgja vel verkefnalýsingum, vera þægilegar í samskiptum og vera hreint út sagt alveg til fyrirmyndar.

Sædís Sól varð sem fyrr segir semidúx skólans og útskrifaðist með 9,36. Hún hafði þetta að segja um upplifun sína af náminu í MTR.

Ég bý í Reykjavík en er ættuð frá Skagaströnd. Ég er í 5 manna fjölskyldu, bý með foreldrum mínum og yngri bróður en eldri systir mín er flutt að heiman og er ég svo heppin að eiga lítinn guðson. Ég flutti ung að aldri til Reykjavíkur en fer enn reglulega til Skagastrandar. Ég ólst upp í Grafarholti og var alla grunnskólagöngu mína í Sæmundarskóla.

Ég hef verið í fullu starfi með náminu. Þegar ég byrjaði í MTR þá var ég að vinna á hjúkrunarheimili en seinna fór ég að vinna sem stuðningsfulltrúi fyrir fatlaða og hef unnið við það síðastliðna átta mánuði. Vaktirnar mínar eru á ýmsum tímum sólarhringsins en það virkar alveg fyrir mig það þarf bara að skipuleggja sig vel.

Ég byrjaði framhaldsskólagönguna í staðnámi en það hentaði mér alls ekki. Ég tók rúmlega árshlé en heyrði þá af MTR, frétti í raun af skólanum inn á grúppu sem heitir Beauty Tips á Facebook, það var stelpa þar sem að var að mæla með fjarnáminu í MTR. Eftir að ég hafði kynnt mér skólann leist mér mjög vel á hvernig öllu var háttað þar. Maður gat skipulagt sitt eigið nám og verið að vinna með því sem mér fannst frábært. Ég ákvað því að sækja um í MTR og eftir fyrstu önnina þá vissi ég að þetta væri skólinn sem ég myndi útskrifast frá. Reynslan leiddi nefnilega í ljós að skipulag skólans hentaði mér virkilega vel. Verkefnin voru líka svo fjölbreytt og námið svo áhugavert að metnaðurinn jókst og ég varð ákveðin í að klára stúdentinn.

Ekki má gleyma þætti kennaranna, ég er virkilega ánægð með alla kennarana sem kenndu þau fög sem ég var í. Samskiptin við þá gengu mjög vel og þeir voru mjög fljótir að svara. Ég man að ég sendi skilaboð rétt eftir miðnætti eitt skiptið og fékk svar strax, það sýnir bara hversu mikinn metnað kennararnir hafa. Allir kennararnir voru líka opnir fyrir alls konar spurningum og maður þurfti ekkert að hafa áhyggjur af því hvort spurningin væri asnaleg eða ekki því kennararnir gefa manni svigrúm að spyrja að hverju sem er og eru ekkert að dæma mann. Kennararnir eiga skilið stórt hrós fyrir góða kennslu, hvatningu og stuðning að ógleymdum gagnlegu athugasemdunum sem komu reglulega á Innu sem og við hvert einasta verkefni.

Ég er mjög fegin að hafa valið MTR. Ég get þó alveg viðurkennt að þó námið hafi verið áhugavert og verkefnin fjölbreytt þá var það líka mjög krefjandi en svoleiðis á það að vera, maður lærir mest á því. Ég lærði að skipuleggja mig vel og stunda námið reglulega. Ég er búin að læra mjög margt nýtt sem nýtist mér í framtíðinni. Næst á dagskrá er Sjúkraflutningaskólinn og ég tel mig vel undirbúna fyrir hann eftir að hafa stundað nám í MTR.