Fjölbreytt símenntun starfsfólks

Námskeið mynd GK
Námskeið mynd GK

Mikilvægur liður í starfsþróun allra starfsstétta er endurmenntun þar sem aflað er nýrrar færni eða leitast við að styrkja þá færni sem þegar er til staðar. Í dag, á tímum mikilla framfara á sviði tækni og þekkingaröflunar, er þessi liður enn mikilvægari en áður og líklega réttara að tala um símenntun frekar en endurmenntun. Þau sem vinna við að mennta komandi kynslóðir þurfa sannarlega að vera á tánum og fylgjast með nýjustu straumum og stefnum í kennslufræðum sem og tækninýjungum sem nýtast í kennslu og námi.

Starfsfólk Menntaskólans á Tröllaskaga er mjög meðvitað um þetta og allt frá stofnun skólans hefur símenntun verið einn af hornsteinum starfsmannastefnu skólans. Markvisst er haldið utan um símenntun starfsfólksins og er hún skráð í sameiginlegt skjal sem allt starfsfólk hefur aðgang að og getur þannig fengið hugmyndir að eigin símenntun frá öðrum. Einnig gerir starfsfólk reglulega grein fyrir innihaldi námskeiða sem það sækir á fagfundum kennara.

Í kjarasamningum kennara er gert ráð fyrir 80 klukkustundum á ári í endurmenntun fyrir utan kennarafundi og ýmsa fræðslu sem skólastjórnendur skipuleggja. Á síðasta ári gerði starfsfólk skólans töluvert betur en það því að meðaltali sinnti starfsfólkið endurmenntun í rúmlega 200 stundir. Þessi endurmenntun var í ýmsu formi t.d. lestur bóka og fræðirita, hlustun á hlaðvörp og fyrirlestra og áhorf á fræðsluþætti sem hver sinnti fyrir sig eftir sínum kennslugreinum og áhugasviðum. Einnig var þátttaka í námskeiðum og samstarfsverkefnum með erlendum skólum mjög almenn og ferðaðist starfsfólk skólans til á annars tugs landa í slíkum erindagjörðum sem og töluvert innanlands.

Umfjöllunarefnin í símenntun starfsfólks á síðasta ári voru af ýmsum toga, gervigreind og upplýsingatækni voru ofarlega á blaði hjá mörgum en einnig má nefna jákvæða sálfræði, streitustjórnun, menningarlæsi, heimsmarkmiðin, íslensku sem annað mál, stöðu menntakerfisins, yoga, heimspeki, raddheilsu, upplifun drengja á skólakerfinu, kynferðisofbeldi og ýmislegt fleira.