Fréttir

Bryndís Klara Birgisdóttir

Vegna útfarar Bryndísar Klöru Birgisdóttur nemanda Verzlunarskóla Íslands verður flaggað í hálfa stöng í dag. Örlög Bryndísar Klöru hafa haft sterk áhrif á nemendur og starfsfólk skólans. Sendum við aðstandendum hennar, vinum, samnemendum og starfsfólki Verzlunarskóla Íslands okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Lesa meira

Líflegar umræður á Skólafundi í gær

Á hverju skólaári er haldinn Skólafundur þar sem nemendur ræða ýmis málefni sem skipta þá og skólastarfið í heild sinni miklu máli. Eitt af því sem hefur einkennt skólastarfið í MTR síðustu ár er erlent samstarf og var því ákveðið að fundurinn í ár yrði að mestu helgaður því málefni. Nemendum var skipt upp í hópa og veltu þeir fyrir sér hvað fælist í því að vera UNESCO-skóli og Erasmus-skóli. Einnig hvaða tækifæri það byði upp á og hvort í því fælust einhverjar skyldur. Fjarnám einkennir einnig skólastarfið í MTR, enda eru fjarnemar mikill meirihluti nemenda við skólann. Eitt og annað hefur verið reynt í gegnum tíðina til að auka tengingu og samvinnu staðnema og fjarnema og var ákveðið að biðja nemendur einnig um að velta vöngum yfir þeim málum. Voru þeir spurðir hvert viðhorf þeirra væri til þessarar samvinnu og hvernig nemendur sæju fyrir sér að hún væri. Sköpuðust líflegar umræður í hópunum og skiluðu þeir niðurstöðum sínum til sjálfsmatsteymis skólans sem tekur þær til frekari úrvinnslu.
Lesa meira

Bleikt í minningu Bryndísar Klöru

Nemendur og starfsfólk Menntaskólans á Tröllaskaga klæddust bleiku í dag til að sýna samhug og samstöðu og heiðra minningu Bryndísar Klöru. Votta allir í MTR fjölskyldu og vinum Bryndísar Klöru innilegrar samúðar á þessum erfiðu tímum.
Lesa meira

Fjör á nýnemadegi í gær

Líkt og undanfarin ár eru nýnemar boðnir velkomnir í skólann með dagskrá þar sem nýir nemendur og eldri takast saman á við ýmis verkefni á sérstökum nýnemadegi. Er þetta gert til að hrista hópinn saman og brjóta ísinn í samskiptum. Dagskráin var skipulögð af stjórn nemendafélagsins Trölla og hófst með því að nemendum var skipt í nokkur lið sem áttu að leysa ýmsar frumlegar þrautir bæði í skólanum sem og víða um Ólafsfjörð. Hvert lið safnaði stigum fyrir hverja þraut og tók myndir eða myndbönd til að sanna að þrautin hafði verið leyst af hendi. Hér má nefna skemmtilegar þrautir eins og að segja einstaklingi “pabbabrandara”, gera góðverk fyrir einhvern íbúa bæjarins, knúsa kennara, framkvæma heljarstökk á ærslabelg, skora á íbúa í kapphlaup og semja ljóð. Skemmtu nemendur sér hið besta við þessar áskoranir sem alls voru rúmlega 20 talsins. Í hádeginu bauð skólinn upp á pizzuveislu og að henni lokinni var verðlaunaafhending fyrir frammistöðuna í ratleiknum. Dagskránni lauk svo í sundlauginni þar sem gott var að slaka á eftir fjörið eða sprikla meira, allt eftir smekk hvers og eins.
Lesa meira

Undirbúningur fyrir ökunám

Allt frá stofnun skólans, árið 2010, hefur verið starfrækt við hann starfsbraut en hún er ætluð nemendum sem hafa viðurkennd greiningargögn um fötlun skv. lögum um málefni fatlaðra nr. 59/1992. Námið er einstaklingsmiðað og sveigjanlegt. Nám og kennsla á starfsbraut er skipulagt með tilliti til þess nemendahóps sem innritast á brautina á hverjum tíma. Áhersla er lögð á að auka félagsleg samskipti nemenda sem og að undirbúa þá undir áframhaldandi nám og ýmsar áskoranir sem þeirra bíða í lífinu. Á þessari önn er einn þeirra áfanga sem kenndur er á starfsbrautinni ætlaður til að undirbúa nemendur undir ökunám og bóklega hluta ökuprófsins. Í áfanganum er farið yfir námsefni sem lagt er til grundvallar almennu ökuprófi með áherslu á lög, umferðarmerki, götumerkingar, umferðarmenningu og hegðun í umferðinni með áherslu á jákvæð viðhorf til tillitssemi og ábyrgðar í umferðinni. Nemendur spreyta sig á verkefnum tengdum efninu og farið er í vettvangsferðir þar sem fræðilegi hlutinn er tengdur við raunverulegar aðstæður í umferðinni. Unnið er markvisst að undirbúningi nemenda fyrir almennt ökupróf og reynt að hafa verkefnin í takti við áhuga, hæfi og getu hvers og eins. Kennari í áfanganum er Kristín Anna Guðmundsdóttir, þroskaþjálfi, sem nýverið hefur lokið meiraprófi og því ýmsum hnútum kunnug í þessum málefnum.
Lesa meira

Enn verða til nýir áfangar

Allir áfangar sem kenndir hafa verið við Menntaskólann á Tröllaskaga hafa kennarar skólans búið til, er þar bæði um að ræða alla grunnáfanga sem og mikinn fjölda valáfanga. Alls er um að ræða á fjórða hundrað áfanga. Einkunnarorð skólans: Frumkvæði - Sköpun - Áræði, endurspeglast í þessum áföngum sem og kennsluháttum, námsaðferðum, skipulagi og viðfangsefnum. Með framhaldsskólalögunum frá 2008 var ábyrgðin á námskrárgerð færð yfir til skólanna og þeim gefið frjálst að skipuleggja það nám sem þeir vilja bjóða upp á. MTR tók til starfa árið 2010 og var þessari nýbreytni tekið opnum örmum þegar skólinn var í mótun. Eins og að líkum lætur urðu margir áfangar til á fyrstu árum skólans en nýir áfangar hafa orðið til á hverri önn síðan eftir þörfum og áhuga nemenda sem kennara. Fyrri áfangar eru einnig endurskoðaðir í hvert sinn sem þeir eru kenndir og mið tekið af reynslu nemenda sem sitja þá, kennara sem kenna þá og einnig ráða tækninýjungar og þróun hverrar námsgreinar fyrir sig ferðinni. Á þessari önn eru þrír nýsmíðaðir áfangar í boði. Einn þeirra lýtur að afreksíþróttaþjálfun og er sniðinn að þörfum þeirra sem stunda slíka þjálfun, annar snýst um erfðafræði þar sem meginþættir eru erfðafræði mannsins og líftækni og síðan er spennandi áfangi; erlent samstarfsverkefni þar sem unnið er með menningararfleifð.
Lesa meira

Fimmtánda starfsárið hafið

Undanfarnar vikur hafa kennarar skólans sinnt undirbúningi fyrir kennslu annarinnar. Lauk þeim undirbúningi með tveggja daga samveru þar sem ýmis mál voru rædd og lagt á ráðin fyrir önnina. Starfsfólk sammæltist um að áhersluefni vetrarins verði farsæld nemenda og starfsfólks og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Kennarar ræddu símenntun sína sem var einstaklega fjölbreytt og mun nýtast vel í skólastarfinu. Skoðað var hvernig unnið verður með heimsmarkmiðin í vetur enda er MTR UNESCO-skóli. Farið var yfir hvaða erlendu verkefni verða í gangi í vetur. Að sjálfsögðu var einnig rætt um gervigreind, sem kennarar skólans unnu markvisst með á síðasta skólaári, hvaða tækifæri felast í henni og hvernig verður haldið áfram að þróa gervigreindina í skólastarfið. Nemendur mættu svo í skólann í gær, spenntir að takast á við næsta kafla í skólagöngunni. Lára Stefánsdóttir, skólameistari, bauð þá velkomna í skólann, hvatti þá til dáða í náminu framundan og talaði um mikilvægi þess að finna sitt áhugasvið sem og að taka ábyrgð á eigin námi. Að því loknu kynntu kennarar sig fyrir nýnemahópnum og í kjölfar þess hófust fyrstu kennslustundir þessa fimmtánda starfsárs skólans.
Lesa meira

Skólabyrjun, skólinn fullur

Nám hefst mánudaginn 19. ágúst. Staðnemar mæta samkvæmt stundaskrá og fjarnemar mæta á netinu í Moodle sama dag. Stundatöflur opna 15. ágúst í Innu. Nemendur finna áfanga sína á Innu undir Námið > Námsferill- annir og þar má finna námsgögn ef við á undir hverjum áfanga. Skólinn er mjög ásetinn og ekki er hægt að taka fleiri nemendur inn á haustönn. Innritun fyrir vorönn hefst 1. nóvember. Stundatöflur opna 15. ágúst í Innu.
Lesa meira

Fjölmennasta brautskráningin til þessa

Það var hátíðleg stund í Menntaskólanum á Tröllaskaga í gær þegar fimmtíu og tveir nemendur brautskráðust og hefur útskriftarhópurinn aldrei verið stærri. Alls hafa nú 602 nemandur brautskráðst frá skólanum á þeim fjórtán árum sem hann hefur starfað. Fimm staðnemar voru í útskriftarhópnum en stærstur hluti nemenda skólans eru fjarnemar og voru fjörutíu og sjö þeirra að útskrifast í dag. Þeir koma frá fjórtán stöðum af landinu. Tuttugu og einn útskriftarnemi sá sér fært að mæta í athöfnina en aðrir fylgdust með í streymi. Margir nemanna voru að koma í skólann í fyrsta sinn á útskriftardaginn.
Lesa meira

Áhugavert námskeið um gervigreind

Menntaskólinn á Tröllaskaga stóð fyrir lærdómsríku og áhugaverðu námskeiði um gervigreind (AI) fyrir starfsfólk sitt, haldið af hinum virta gervigreindarfræðingi Thomasi Lakowski sem starfar hjá Europass. Markmið þess var að auka þekkingu starfsfólks á fyrirbærinu og kynna þeim ýmis verkfæri sem nauðsynleg eru til að samþætta gervigreindartækni inn í kennsluhætti sína og starf.
Lesa meira