Fjölmennasta brautskráningin til þessa

Hópmynd mynd GK
Hópmynd mynd GK

Það var hátíðleg stund í Menntaskólanum á Tröllaskaga í gær þegar fimmtíu og tveir nemendur brautskráðust og hefur útskriftarhópurinn aldrei verið stærri. Alls hafa nú 602 nemandur brautskráðst frá skólanum á þeim fjórtán árum sem hann hefur starfað. Fimm staðnemar voru í útskriftarhópnum en stærstur hluti nemenda skólans eru fjarnemar og voru fjörutíu og sjö þeirra að útskrifast í dag. Þeir koma frá fjórtán stöðum af landinu. Tuttugu og einn útskriftarnemi sá sér fært að mæta í athöfnina en aðrir fylgdust með í streymi. Margir nemanna voru að koma í skólann í fyrsta sinn á útskriftardaginn.

Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir aðstoðarskólameistari stýrði athöfninni og flutti ávarp þar sem hún sagði frá starfi skólans. Í máli hennar kom m.a. fram að á þessari önn voru um 540 nemendur skráðir í nám. Um 90% þeirra fjarnemar og stór hluti af höfuðborgarsvæðinu. Kjörnámsbraut var fjölmennasta brautin og þar á eftir félags- og hugvísindabraut. Einnig kom fram í ávarpi hennar að í gegnum tíðina hafi erlend verkefni verið áberandi í skólastarfinu og hafi fengist fjöldinn allur af styrkjum til þeirra. Erasmus-styrkir séu fastur liður í skólastarfinu og hafi gert bæði nemendum og kennurum kleift að fara í ferðir til útlanda og taka einnig á móti nemendahópum erlendis frá. Kennarar eigi kost á því að nýta sér slíka styrki til endurmenntunar og hafa verið duglegir við það. Á vordögum hlaut skólinn gæðaviðurkenningu fyrir umsóknir sínar og verkefni á uppskeruhátíð Evrópuverkefna. Einnig er MTR UNESCO-skóli sem fléttar heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna inn í allt skólastarf og í skólanum er unnið ötullega að umhverfismálum.

Skólameistarinn Lára Stefánsdóttir flutti einnig ávarp þar sem hún óskaði útskriftarnemum allra heilla og sagði að stúdentspróf í dag væri frekar varða á veginum heldur en tímamót. Hvatti hún þau til að finna og rækta sig sjálf, vinna með styrkleika sína, vera víðsýn, læra af öðrum, halda áfram að læra út lífið og velja sér störf sem þau hefðu ánægju af svo það væri gaman að mæta í vinnuna. Henni varð tíðrætt um tæknina og hvernig hún hefði breytt lífi okkar og héldi áfram að gera það á enn meiri hraða en áður. Nauðsynlegt væri að vinna með tækniþróununni, kunna að nota tækin, vinna úr upplýsingum og greina þær svo við yrðum ekki eftir á og ekki væri hægt að spila á okkur með ýmis konar áróðri og fölskum upplýsingum heldur hefðum við gagnrýna hugsun. Einnig ræddi hún um mikilvægi þess að mæta hverjum degi með jákvæðni og sjá bjartari hliðar á lífinu. Nefndi hún sem dæmi er hún, borgarbarnið, flutti til Ólafsfjarðar til að gerast skólameistari við MTR, þá voru það mikil viðbrigði og hún kveið því að dvelja þar í fámenninu. En smátt og smátt fór hún að sjá fegurðina í því að búa þar, náttúrufegurðin, fjöllin, samheldnin, kynnin við íbúana og allt þetta smáa sem gefur lífinu gildi og hægt er að gleðjast yfir.

Ávarp nýstúdents flutti Sigurbjörg Brynja Ingvarsdóttir. Hún lagði mikla áherslu á hversu valdeflandi námið við MTR hefði verið og hversu stuðningur kennara hefði skipt miklu máli. Hún hefði byrjað þar 15 ára óöruggur unglingur en útskrifaðist nú sjálfsörugg og tilbúin að takast á við næstu skref. Skólinn byði upp á öruggt umhverfi þar sem allir nemendur gætu verið þeir sjálfir og hefðu tækifæri til að blómstra. Einnig þótti henni merkilegt að skóli í litlum bæ á norðurhjara landsins gæti verið svona tæknilegur og framsýnn og veitt góða nútímalega menntun. Hún hefði m.a. fengið tækifæri til að fara í skiptinám til Kaupmannahafnar, fyrst nemenda MTR, og það hefði verið frábær upplifun og góð reynsla sem mundi gagnast henni vel í lífinu. Frelsið sem hún hefði notið í náminu hefði gert hana sjálfstæðari og ábyrgari fyrir eigin námi. Fyrir hönd útskriftarnema þakkaði hún samstarfið við starfsfólkið sem hún sagði vera jákvætt, hvetjandi og skilningsríkt og námið væri sérlega vel skipulagt.

Við athöfnina söng Kristín Lára Birgittudóttir Pells, ein af útskriftarnemunum tvö lög við undirleik Ave Kara Sillaots.