Enn verða til nýir áfangar

Kennslustund mynd GK
Kennslustund mynd GK

Allir áfangar sem kenndir hafa verið við Menntaskólann á Tröllaskaga hafa kennarar skólans búið til, er þar bæði um að ræða alla grunnáfanga sem og mikinn fjölda valáfanga. Alls er um að ræða á fjórða hundrað áfanga. Einkunnarorð skólans: Frumkvæði - Sköpun - Áræði, endurspeglast í þessum áföngum sem og kennsluháttum, námsaðferðum, skipulagi og viðfangsefnum.

Með framhaldsskólalögunum frá 2008 var ábyrgðin á námskrárgerð færð yfir til skólanna og þeim gefið frjálst að skipuleggja það nám sem þeir vilja bjóða upp á. MTR tók til starfa árið 2010 og var þessari nýbreytni tekið opnum örmum þegar skólinn var í mótun. Eins og að líkum lætur urðu margir áfangar til á fyrstu árum skólans en nýir áfangar hafa orðið til á hverri önn síðan eftir þörfum og áhuga nemenda sem kennara. Fyrri áfangar eru einnig endurskoðaðir í hvert sinn sem þeir eru kenndir og mið tekið af reynslu nemenda sem sitja þá, kennara sem kenna þá og einnig ráða tækninýjungar og þróun hverrar námsgreinar fyrir sig ferðinni.

Á þessari önn eru þrír nýsmíðaðir áfangar í boði. Einn þeirra lýtur að afreksíþróttaþjálfun og er sniðinn að þörfum þeirra sem stunda slíka þjálfun, annar snýst um erfðafræði þar sem meginþættir eru erfðafræði mannsins og líftækni og síðan er spennandi áfangi; erlent samstarfsverkefni þar sem unnið er með menningararfleifð.