Undirbúningur fyrir ökunám mynd GK
Allt frá stofnun skólans, árið 2010, hefur verið starfrækt við hann starfsbraut en hún er ætluð nemendum sem hafa viðurkennd greiningargögn um fötlun skv. lögum um málefni fatlaðra nr. 59/1992. Námið er einstaklingsmiðað og sveigjanlegt. Nám og kennsla á starfsbraut er skipulagt með tilliti til þess nemendahóps sem innritast á brautina á hverjum tíma. Áhersla er lögð á að auka félagsleg samskipti nemenda sem og að undirbúa þá undir áframhaldandi nám og ýmsar áskoranir sem þeirra bíða í lífinu.
Á þessari önn er einn þeirra áfanga sem kenndur er á starfsbrautinni ætlaður til að undirbúa nemendur undir ökunám og bóklega hluta ökuprófsins. Í áfanganum er farið yfir námsefni sem lagt er til grundvallar almennu ökuprófi með áherslu á lög, umferðarmerki, götumerkingar, umferðarmenningu og hegðun í umferðinni með áherslu á jákvæð viðhorf til tillitssemi og ábyrgðar í umferðinni. Nemendur spreyta sig á verkefnum tengdum efninu og farið er í vettvangsferðir þar sem fræðilegi hlutinn er tengdur við raunverulegar aðstæður í umferðinni. Unnið er markvisst að undirbúningi nemenda fyrir almennt ökupróf og reynt að hafa verkefnin í takti við áhuga, hæfi og getu hvers og eins.
Kennari í áfanganum er Kristín Anna Guðmundsdóttir, þroskaþjálfi, sem nýverið hefur lokið meiraprófi og því ýmsum hnútum kunnug í þessum málefnum.