Fjör á nýnemadegi í gær

Nemendur mynd ÞH
Nemendur mynd ÞH

Líkt og undanfarin ár eru nýnemar boðnir velkomnir í skólann með dagskrá þar sem nýir nemendur og eldri takast saman á við ýmis verkefni á sérstökum nýnemadegi. Er þetta gert til að hrista hópinn saman og brjóta ísinn í samskiptum. Dagskráin var skipulögð af stjórn nemendafélagsins Trölla og hófst með því að nemendum var skipt í nokkur lið sem áttu að leysa ýmsar frumlegar þrautir bæði í skólanum sem og víða um Ólafsfjörð. Hvert lið safnaði stigum fyrir hverja þraut og tók myndir eða myndbönd til að sanna að þrautin hafði verið leyst af hendi. Hér má nefna skemmtilegar þrautir eins og að segja einstaklingi “pabbabrandara”, gera góðverk fyrir einhvern íbúa bæjarins, knúsa kennara, framkvæma heljarstökk á ærslabelg, skora á íbúa í kapphlaup og semja ljóð. Skemmtu nemendur sér hið besta við þessar áskoranir sem alls voru rúmlega 20 talsins.

Í hádeginu bauð skólinn upp á pizzuveislu og að henni lokinni var verðlaunaafhending fyrir frammistöðuna í ratleiknum. Dagskránni lauk svo í sundlauginni þar sem gott var að slaka á eftir fjörið eða sprikla meira, allt eftir smekk hvers og eins.