04.12.2023
Að venju verður sýning á verkum nemenda í lok annarinnar og verður blásið til nýrrar sóknar í þeim efnum eftir nokkur róleg ár vegna áhrifa Covid faraldursins. Sýningin verður haldin föstudaginn 8. desember og stendur frá kl. 16.00 - 21.00. Milli 16.00 og 18.00 verða skemmtilegar vinnustofur og jólaföndur fyrir börn auk þess sem veitingar verða í boði. Á sýningunni má sjá fjölbreytt verk jafnt staðnema sem fjarnema; ljósmyndir og málverk nemanda af listabraut sem og skapandi verkefni nemanda af öðrum brautum. Einkunnarorð skólans: Frumkvæði - Sköpun - Áræði hafa verið í hávegum höfð við vinnu þessara verkefna og valin verkefni verða einnig til sýnis á heimasíðu skólans.
Athygli er vakin á því að sama dag og sýningin er haldin er Jólakvöldið í Ólafsfirði og því tilvalið að slá tvær flugur í einu höggi og njóta alls þess sem í boði verður á Ólafsfirði þennan dag.
Lesa meira
28.11.2023
Menntaskólinn á Tröllaskaga er meðlimur í FLUID, sem eru dönsk samtök um fjarnám. Samtökin skipulögðu ferð á hina árlegu ráðstefnu Online Educa Berlin, OEB 2023, sem bar undirtitilinn “The 29th Annual Global Cross-Sector Conference and Exhibition on Digital Learning and Training “ og fór hún fram dagana 22. - 24. nóvember sl. Þátttakendur á ráðstefnunni voru um 2000 og þar af voru tveir kennarar frá MTR. Þema ráðstefnunnar í ár var “The learning futures we choose” .
Lesa meira
23.11.2023
Eins og við höfum sagt frá hér áður er öflugt félagsstarf í skólanum sem stjórn nemendafélagsins Trölla leiðir. Félagsstarfið markast þó af þeirri staðreynd að staðnemar skólans koma frá nokkrum byggðakjörnum á Eyjafjarðarsvæðinu, allt frá Akureyri til Siglufjarðar, og ekki eru almenningssamgöngur á milli þeirra nema á daginn. Félagsstarfið er því að einhverju leyti bundið við skóladaginn en stakir stærri viðburðir eru á kvöldin s.s. jólakvöld, árshátíð og spila- og lankvöld enda nemendur oft uppteknir við vinnu eða að sinna félagsstarfi í sinni heimabyggð á kvöldin. Má þar t.d. nefna íþróttaæfingar og tónlistariðkun, margir starfa með ungliðasveitum björgunarsveita og einhverjir hafa stigið á leiksvið með leikfélögum á svæðinu, svo eitthvað sé nefnt.
Á síðustu önn var tekin upp sú nýbreytni að nemendum MTR var boðinn aðgangur að félagsmiðstöðinni Neon í Fjallabyggð eitt kvöld í mánuði, að frumkvæði starfsfólks Neon. Hefur þessu samstarfi verið haldið áfram á þessari önn og opnunarkvöldin verið vel sótt. Félagsmiðstöðin er á Siglufirði og var tekin í notkun í fyrra. Hún er hin glæsilegasta og vel tækjum búin svo ungmennin hafa nóg við að vera.
Lesa meira
21.11.2023
Undanfarna tvo daga hafa nemendur úr 8. - 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar komið í skólann til að yrkja. Tilefnið er hin árlega ljóðasamkeppni þessara bekkja sem er liður í ljóðahátíðinni Haustglæður sem haldin hefur verið í Fjallabyggð undanfarin 17 ár. Hátíðin er samstarfsverkefni Ljóðaseturs Íslands og Ungmennafélagsins Glóa en Grunnskóli Fjallabyggðar og Menntaskólinn á Tröllaskaga eru meðal þeirra aðila sem koma að framkvæmdinni. Nemendur nota listaverk sem innblástur að ljóðum og að þessu sinni voru sett upp verk eftir starfsfólk skólans og fyrrverandi nemendur hans.
Þórarinn Hannesson kennari í MTR og forstöðumaður Ljóðaseturs Íslands veitti nemendum góð ráð í ljóðagerðinni áður en haldið var af stað. Vel gekk hjá nemendum að setja í orð túlkun sína á þeim listarverkum sem prýddu veggi og tæplega áttíu ný ljóð urðu til. Næstu daga mun dómnefnd vega og meta afurðirnar og höfundar bestu ljóðanna verða svo verðlaunaðir. Úrslit verða kunngjörð á Ljóðasetri Íslands á Siglufirði í desember.
Það er mikils virði fyrir skólann að fá ungmenni úr grunnskóla byggðarlagsins í heimsókn. Með því fá þau að kynnast andrúmsloftinu í skólanum sem eykur líkurnar á að þau sækist eftir skólavist þegar þar að kemur.
Lesa meira
14.11.2023
Við höfum haft samband við alla nemendur, sem eiga lögheimili í Grindavík, vegna jarðhræringanna þar og þess ástands sem þær hafa í för með sér. Farið var yfir með hverjum og einum hvaða leiðir eru í boði og hvernig við áætlum að vinna með þeim út önnina. Sama á við björgunaraðila sem hafa verið við störf í Grindavík. Ef einhverjir hafa orðið útundan, búa í Grindavík en ekki með lögheimili þar eða eru við björgunaraðgerðir og hafið ekki haft samband vinsamlegast hafið samband við Birgittu umsjónarkennara fjarnáms, birgitta@mtr.is eða í síma 862 6987
Lesa meira
13.11.2023
Nýr hjúkrunarfræðingur hefur tekið við þjónustu heilsugæslunnar við nemendur MTR. Í síðustu viku kom hún í skólann til að kynna sig og þá þjónustu sem er í boði. Gaman er að segja frá því að þessi nýi hjúkrunarfræðingur er stúdent frá MTR, Elfa Sif Kristjánsdóttir, sem nýlega lauk námi í hjúkrunarfræði frá Háskólanum á Akureyri. Þjónustan er á formi einstaklingsmiðaðrar ráðgjafar og áherslan er á vegvísi um heilbrigðiskerfið. Verður boðið upp á fræðslu og ráðgjöf við vægum vanda, s.s. tengdum geðheilbrigði, kynheilbrigði, félagslegum vanda og almennu heilbrigði. Þjónustan er til að auka geðheilbrigðisþjónustu við framhaldsskólanema og er viðbót við þá stuðningsþjónustu sem nú þegar er til boða í skólanum og er nemendum og skólum að kostnaðarlausu.
Lesa meira
08.11.2023
Í síðustu viku var Hrekkjavökunni fagnað hjá nemendafélagi skólans með hryllilegri samkomu í skólanum. Salur skólans var skreyttur hátt og lágt með graskerjum og viðeigandi verum og vefjum. Hryllingsmynd rúllaði á skjánum og nemendur klæddust ýmsum búningum í anda dagsins. Skemmtu allir sér hið besta.
Það sem af er hausti hefur nemendafélagið Trölli staðið fyrir mörgum viðburðum. Gleðin hófst með nýnemadeginum þar sem farið var í ratleik um Ólafsfjörð, spilaður fótbolti og svamlað í sundlauginni og heitu pottunum. Síðan var haldið spilakvöld þar sem ýmis borðspil voru leikin og tvö lan-kvöld hafa verið haldin þar sem tölvuleikir áttu sviðið. Ekki má gleyma hinum vinsælu þemadögum en alla miðvikudaga mæta nemendur í skólann klæddir eftir mismunandi þemum og starfsfólkið tekur einnig virkan þátt. Undirbúningur fyrir jólakvöldið í desember er einnig hafin hjá nemendafélaginu en sá viðburður er sá stærsti á önninni í félagslífinu.
Nemendaráði til halds og trausts við skipulag þessara viðburða er Hólmar Hákon Óðinsson, en rík áhersla er þó lögð á frumkvæði nemendanna sjálfra við hugmyndavinnu og framkvæmd.
Lesa meira
01.11.2023
Innritun í fjarnám stendur nú yfir fyrir vorönn 2024. Vinsamlegast skráið umsóknir í gegnum heimasíðu skólans.
Lesa meira
30.10.2023
Í síðustu viku kom slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Fjallabyggðar í skólann og hélt kynningu fyrir nemendur og starfsfólk á viðbragðsáætlunum sem til staðar eru fyrir skólann sem og viðbrögðum við eldsvoða. Í kjölfar kynningarinnar og umræðna um efni hennar var æfð skyndirýming í skólahúsnæðinu með starfsfólki og nemendum þar sem ýmsir neyðarútgangar voru notaðir. Að lokinni rýmingu var farið yfir hvernig hún gekk fyrir sig með gagnrýnum augum og hugað að því sem betur mátti fara. Starfsfólkið fékk svo leiðsögn í notkun slökkvitækja og eldvarnarteppa og fékk tækifæri til að æfa sig á réttu handtökunum.
Viðbragðsáætlun skólans og viðbragðsleiðbeiningar má sjá á þessari slóð:
https://www.mtr.is/is/skolinn/aaetlanir-og-stefnur
Lesa meira
25.10.2023
Þegar Menntaskólinn á Tröllaskaga var stofnaður haustið 2010 voru starfsmenn 9 og nemendur voru 72 á fyrstu önn. Þó ekki séu nema rúm 13 ár frá þeim merku tímamótum að fá framhaldsskóla í sveitarfélagið þá hefur mikið vatn runnið til sjávar frá fyrstu dögunum. Skólastarfið hefur þróast ár frá ári og fjöldi starfsfólks og nemenda vaxið hröðum skrefum. Nemendur eru nú rúmlega 500 og starfsmannahópurinn telur 28 manns.
Útkoma úr valinu á Stofnun ársins meðal ríkisstofnanna sýnir að MTR er sérlega góður vinnustaður því þar hefur skólinn verið í efstu sætum undanfarin 9 ár. Í könnuninni sem liggur til grundvallar valinu er spurt um starfsánægju, starfsaðstæður og kjör hjá stofnunum ríkis og sveitarfélaga og sjálfseignarstofnunum. Niðurstöður sýna að starfsandi er mjög góður og starfsmannavelta hefur verið með minnsta móti. Einhverjar breytingar verða þó á hverju skólaári og í upphafi þessa skólaárs barst okkur góður liðsauki; nýr kennari, sem leysir af annan í námsleyfi, og nýr fjármálastjóri.
Inga Þórunn Waage er nýr kennari við skólann og kennir hún ensku og mannkynssögu. Hún lauk kennsluréttindum frá Háskólanum á Akureyri vorið 2022 og var í æfingakennslu hjá okkur í MTR í námi sínu. Inga Þórunn er fædd í Reykjavík og tók stúdentspróf af nýmálabraut frá Menntaskólann í Reykjavík. Eftir það lá leiðin til Ástralíu þar sem hún sótti sér diplómu í ljósmyndun áður en hélt aftur á heimaslóðir og lauk BA í ensku við Háskóla Íslands. Eftir BA námið flutti hún til Berlínar og nam enskar bókmenntir, menningu og miðlun við Humboldt Univerität zu Berlin. Eftir að meistaranámi lauk vann hún í Berlín og Barselóna í nokkur ár við þýðingar, kennslu og textasmíðar. Færði sig svo um set og hóf störf hjá hugbúnaðarfyrirtækinu GODO í Reykjavík og vann þar til 2019. Þá söðlaði hún enn um og flutti norður á Siglufjörð með fjölskylduna og hóf störf hjá Síldarminjasafni Íslands þar sem hún vann við varðveislu og miðlun þar til hún hóf störf hjá okkur í haust.
Nýr fjármálastjóri er Elsa Guðrún Jónsdóttir sem er fædd og uppalin á Ólafsfirði. Hún lauk stúdentsprófi frá skíðamenntaskólanum í Geilo í Noregi. Þá lá leiðin í Háskólann á Bifröst þar sem hún lauk BS í viðskiptalögfræði og meistaraprófi í lögfræði. Síðan hefur hún bætt við sig vottun frá Háskólanum í Reykjavík sem fjármálaráðgjafi og tekið styttra nám um mannlega millistjórnandann. Menntunarþörfin er enn til staðar og er hún nú skráð í nám í menntunarfræðum við Háskóla Íslands. Elsa starfaði síðustu ár sem fjármálaráðgjafi og útibússtjóri í Arion banka og öðlaðist þar mikla reynslu af skjalavörslu og öðrum verkefnum sem nýtast henni vel í nýju starfi. Elsa Guðrún er margfaldur Íslandsmeistari í skíðagöngu og var fyrsta konan sem keppti á Ólympíuleikum fyrir Íslands hönd í þeirri grein.
Lesa meira