Hópmynd mynd GK
Eins og við sögðum frá á dögunum þá dvaldi 15 manna hópur lettneskra nemenda, þrír kennarar þeirra og skólastjóri í Fjallabyggð alla síðustu viku til að taka þátt í samstarfsverkefni með nemendum í MTR. Verkefnið er styrkt af Nordplus og snýst um að kynna sér óáþreifanlegan menningararf Íslands. Hinir erlendu gestir komu frá bænum Saldus, þar sem búa um tíu þúsund manns, og voru þeir í heimagistingu hjá nemendum og starfsfólki MTR.
Hinir erlendu gestir komu til Ólafsfjarðar snemma á mánudagskvöldi, þar tóku gestgjafarnir á móti þeim og fylgdu hverjum og einum á sinn dvalarstað. Sameiginleg dagskrá hófst svo á þriðjudagsmorgni og var þétt dagskrá allt fram á seinni part föstudags. Hún hófst með heimsókn á þrjú söfn á Siglufirði til að kynna sér þann íslenska menningararf sem þar er að finna, þetta voru Síldarminjasafn Íslands, Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar og Ljóðasetur Íslands. Er óhætt að segja að ýmiskonar menningararfur hafi komið við sögu í þessum heimsóknum og veitt nemendum nýja sýn á viðfangsefni verkefnisins. Um kvöldið var svo spilakvöld í hinni nýju menningarmiðstöð, Brimsölum, í Ólafsfirði þar sem nemendum gafst tækifæri til að kynnast betur og eiga góða stund saman.
Næstu þrír dagar fóru í að vinna úr því sem bar fyrir augu og eyru í safnaheimsóknunum á Siglufirði auk þess sem nemendur veltu fyrir sér ýmsum spurningum sem kennararnir sem stýrðu verkefninu höfðu sett fram. Má þar t.d. nefna hvaða þýðingu menningararleifðir hefðu fyrir komandi kynslóðir, hvernig við gætum viðhaldið þeim og hvort menningararfleifðir gætu hjálpað til við að auka tengsl fólks með mismunandi bakgrunn. Einnig kynntu nemendur sér ýmsar íslenskar menningararfleifðir, tóku viðtöl við fólk innan skólans um þær og notuðu einnig gervigreind til að skoða þær og vinna með. Unnið var að þessum verkefnum í blönduðum hópum og hver hópur skilaði sínum niðurstöðum í rafrænni bók sem hópurinn útbjó með myndum, myndböndum og texta. Hér má finna slóðir á bækurnar Bók 1, Bók 2, Bók 3.
Á kvöldin var tíminn nýttur til samveru, komu nemendur saman í heimahúsum nemenda MTR, spiluðu, spjölluðu og fóru í spurningakeppnir þar sem spurt var um löndin tvö Ísland og Lettland. Einnig fékk hópurinn afnot af félagsmiðstöðinni Neon á Siglufirði þar sem farið var í pílu, borðtennis, þythokkí og ýmislegt fleira skemmtilegt. Er óhætt að segja að hópurinn hafi náð einstaklega vel saman og mynduðust ný vinasambönd án tillits til landamæra. Á laugardeginum fór lettneski hópurinn í hvalaskoðun frá Dalvík og svo var brunað suður á sunnudeginum og flogið út á mánudegi eftir fróðlega og viðburðaríka daga á Íslandi.
Nemendur MTR, sem tóku þátt í þessu samstarfsverkefni, munu svo halda til Lettlands á næstu önn og fræðast um menningararf lettnesku þjóðarinnar. Myndir