Vígvöllur hafstraumanna

Valtýr Hreiðarsson mynd Agnes
Valtýr Hreiðarsson mynd Agnes
Í sjónum út af Norðurlandi mætast heitir og kaldir hafstraumar og það er misjafnt hve stórt svæði hvorir um sig ná yfir. Árferði í sjónum er mismunandi og stýrir fiskgengd á svæðinu. Ýsa og stór þorskur ganga til dæmis aðeins á miðin undan Norðurlandi á hlýskeiðum. Þetta sagði Valtýr Hreiðarsson, fiskifræðingur nemendum í Tröllaskagaáfanga í gær.

Í sjónum út af Norðurlandi mætast heitir og kaldir hafstraumar og það er misjafnt hve stórt svæði hvorir um sig ná yfir. Árferði í sjónum er mismunandi og stýrir fiskgengd á svæðinu. Ýsa og stór þorskur ganga til dæmis aðeins á miðin undan Norðurlandi á hlýskeiðum. Þetta sagði Valtýr Hreiðarsson, fiskifræðingur nemendum í Tröllaskagaáfanga í gær.

Tegundum lífvera í hafinu fækkar eftir því sem sjór er kaldari, en á móti kemur að oft er fjöldi af hverri tegund mikill, eins og til dæmis hjá loðnu og síld. Á hlýrri hafsvæðum eru fleiri tegundir en oft færri einstaklingar af hverri tegund. Með hlýnandi veðurfari má gera ráð fyrir talsverðum breytingum á útbreiðslu fiska og annarra lífvera í sjónum. Kóngakrabbi fannst til dæmis í fyrsta sinn við Ísland í sumar. Þetta er gríðarstór lífvera og hægt að gera að verðmætri vöru. En krabbinn er umsvifamikill í lífríkinu. Norðmenn telja hann skaðvald og reyna að hefta útbreiðsluna en Rússar líta aftur á móti á kóngakrabbann sem nytjadýr. Hér við land er skötuselur sú tegund sem skýrast hefur svarað hlýnuninni. Áður veiddist hann bara sunnan við land en í nokkur ár hefur hann veiðst vestan við land og í kennslustundinni kom fram að einn nemandinn veiddi skötusel þegar hann dorgaði við bryggju í Eyjafirði í sumar.

Fiskifræðingar hafa aflað mikilla upplýsinga um útbreiðslu, lífsferil og veiðiþol tegunda en samt er sumt lítt kannað. Á Drekasvæðinu, þar sem áform eru um leit að olíu, er til dæmis mikið af smokkfiski að því er talið er. Ástæða þess er að mikið er af tannhval á þessum slóðum en hann lifir á smokkfiski. Hugsanlega væri hægt að nýta smokkinn. Með hlýnunni gæti síldin farið að ganga aftur upp að landinu, kóngakrabbi og snjókrabbi, önnur mjög stór krabbategund gætu skapað tækifæri í sjávarútvegi - en þær gætu líka verið ógnun við lífríki hafsins. Aukin gengd stórþorsks hefur orðið til þess að rækjan er að miklu leyti horfin undan Norðurlandi því þorskurinn étur rækjuna. Þannig veldur hlýnun sjávar margvíslegum breytingum á útbreiðslu og lífsferli tegundanna. Sumar breytingarnar fela í sér tækifæri en aðrar ógna því skipulagi sem Íslendingar hafa haft á sjávarnytjum norðan við land.