Nemendur í Listhúsi mynd Alice Liu
Það er hluti af námi í listgreinum að fylgjast með sýningum og öðrum atburðum. Nemendur í áfanganum inngangur að listum fóru í Listhúsið í Ólafsfirði í gær með Karólínu Baldvinsdóttur kennara sínum. Síðustu tíu daga hefur verið af ýmsu að taka hér í Ólafsfirði enda staðið yfir Skammdegishátíð. Fjöldi listamanna, bæði heimamanna og gesta frá öðrum löndum og heimsálfum, hefur framið gjörninga og staðið fyrir tónlistarviðburðum og listsýningum af ýmsu tagi. Þrír listamenn kynntu verk sín og annarra fyrir áhugasömum nemendum í gær. Verkin voru fjölbreytt og hafði eitt til dæmis verið gjörningur Jakubs Janco frá Slóvakíu, í fjörunni á Ósbrekkusandi á Skammdegishátíðinni. Nemendum þótti einnig athyglisverð verk eftir ungt fólk í Ástralíu, bæði listnema og áhugafólk, sem Shasta Stevic sýningarstýra hafði safnað saman og sett upp í Listhúsinu.