Valdefling drengja

Í haust hóf skólinn þátttöku í nýju NordPlus-verkefni sem miðar að því að bæta félagslega sjálfbærni meðal drengja og draga úr brottfalli þeirra úr framhaldsskóla. Verkefnið er unnið í samstarfi við framhaldsskóla í Danmörku og á Grænlandi þar sem lögð er áhersla á að kanna ástæður fyrir lakari námsárangri drengja og hugað að mögulegum lausnum. Fyrir hönd MTR taka þau Guðbjörn Hólm Veigarsson, Ida Semey og Hólmar Hákon Óðinsson þátt í verkefninu.

Þátttakendur heimsóttu nýverið GUX Nuuk framhaldsskólann á Grænlandi þar sem um 450 nemendur stunda nám. Það vakti athygli að um 80% kennaranna eru danskir og fer allt nám fram á dönsku, sem sagt ekki á móðurmáli nemendanna. Í Nuuk kynnti hópurinn sér menntakerfið og menningu landsins meðal annars með heimsókn á listasafn og þjóðminjasafn staðarins. Þar var ljóst að mikil áhrif danskrar menningar gætir enn í skólastarfi í Grænlandi. Verkefnið vekur upp margar spurningar um félagslega og menningarlega þætti sem mögulega hafa áhrif á námsframvindu drengja, bæði á Grænlandi og víðar.

Hugmyndir hópsins beinast meðal annars að áhrifum samfélagsmiðla á athygli drengja, kynjaðri væntingu um hegðun og árangur og stöðluðum hugmyndum um karlmennsku sem gætu haft neikvæð áhrif á námsárangur. Með verkefninu á m.a. að kanna hvort ungt fólk, sérstaklega drengir, upplifi skort á stuðningi vegna staðalímynda um karlmennsku, þar sem það gæti verið litið á það sem veikleika að biðja um aðstoð og viðurkenna að maður geti ekki reddað hlutunum sjálfur.

Niðurstöður verkefnisins verða kynntar að verkefninu en markmiðið er að varpa ljósi á mögulegar leiðir til að styðja betur við drengi í námi og bæta félagslega sjálfbærni þeirra.

Myndir