Nemendur fara yfir stöðuna með kennurum sínum, Idu Semey og Karólínu Baldvinsdóttur. Ljósm. SMH.
Umhverfismál með tengingu við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er viðfangsefni alþjóðlegs verkefnis sem hrint var af stað í vetur. Auk nemenda og kennara MTR taka skólar í Króatíu, Spáni og Portúgal þátt í verkefninu sem er styrkt af Erasmus+.
Verkefnið nefnist BBS eða Become a biomarker school. Markmiðið er að stuðla að aukinni sjálfbærni, aðgerðum í loftslags- og umhverfismálum í hverjum skóla fyrir sig. Einnig að efla tengslanet skólanna í sambandi við umhverfismál. Leiðarstef verkefnisins eru hin fornu frumefni; jörð, loft, eldur og vatn.
Eins og svo oft áður var skrifaður sérstakur áfangi fyrir verkefnið og nemendur hitta kennara sína vikulega en vinna sjálfstætt þess á milli. Á dögunum hittust allur nemendahópurinn á fjarfundi sem tókst mjög vel. Þar kynntu þau sig og sögðu frá áhugamálum sínum en aðal markmið fundarins var að kynna vinnu nemenda síðustu vikur.
Portugalarnir sýndu stuttmynd um skógareldana i Portúgal og vísuðu í frumefnin fjögur. Króatarnir báru saman loftslags- og umhverfismál í löndunum fjórum út frá tölfræðilegum upplýsingum. Þau kynntu einnig smáforrit eða app sem heldur utan um sorpflokkun í skólanum sínum. Spánverjarnir kynntu skólann sinn og sögðu frá Evrópuverkefnum sem hann hefði tekið þátt í og voru að auki með spurningaleik. Að lokum sýndi okkar fólk kynningarmyndband um skólann með enskum texta.
Framundan eru áframhaldandi verkefni og undirbúningur fyrir fyrstu námsferð verkefnisins sem verður til Portúgals í lok apríl. Verkefnið mun halda áfram næstu annir.