Tryggvi og Bjarki mynd GK
Meðal nýbreytni á önninni sem er að hefjast er áfanginn Tölvuleikir og leikjatölvur saga þróun og fræði. Námið á að efla með nemendum sjálfstæða og gagnrýna hugsun og hæfni til samvinnu auk þess að gefa innsýn í tölvuleiki, þróun þeirra og hlutverk. Fimmtán strákar eru skráðir en athygli stúlkna er vakin á því að enn er hægt að skrá sig og nærveru stelpna er eindregið óskað í þessum áfanga. Kennarar eru Bjarki Þór Jónsson og Tryggvi Hrólfsson.
Meðal nýbreytni á önninni sem er að hefjast er áfanginn Tölvuleikir og
leikjatölvur – saga þróun og fræði. Námið á að efla með nemendum sjálfstæða og gagnrýna hugsun og hæfni
til samvinnu auk þess að gefa innsýn í tölvuleiki, þróun þeirra og hlutverk. Fimmtán strákar eru skráðir en athygli
stúlkna er vakin á því að enn er hægt að skrá sig og nærveru stelpna er eindregið óskað í þessum áfanga.
Kennarar eru Bjarki Þór Jónsson og Tryggvi Hrólfsson.
Í lok áfangans fá nemendur tækifæri til að þróa eigin hugmynd að
tölvuleik og kynna hana fyrir öðrum. Áfanginn gengur hins vegar ekki út á að spila leiki þótt fleiri og fleiri stundi þá iðju og
leikirnir verði flóknari og flóknari. Leikir sem áður voru gerðir af litlum vinahópi á stuttum tíma eru nú framleiddir af tugum eða
hundruðum manna á nokkrum árum. Til dæmis komu mörg hundruð manna að gerð leiksins Grand Theft Auto V á fjögurra ára
framleiðslutíma. Íslenska leikjaframleiðslan er í örum vexti og hafa leikirnir EVE Online og DUST 514 frá CCP og QuizUp frá Plain Vanilla
náð miklum vinsældum.
Námskeið í tölvuleikjafræði eru kennd við marga erlenda framhaldsskóla og
háskóla. Hér á landi hafa tölvuleikir hins vegar fyrst og fremst verið notaðir sem kveikjur í kennslu forritunar, stærðfræði og
fleiri greina. Áfanginn sem kenndur verður í MTR á vorönninni er að því er best er vitað sá fyrsti sinnar tegundar í íslenskum
framhaldsskóla ásamt áfanga í kvikmyndafræði og tölvuleikjafræði sem kenndur er í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ
á sama tíma.
Bjarki Þór og Tryggvi þróuðu tölvuleikafræðiáfangann í
námskeiðinu Upplýsingatækni í menntun og skólaþróun sem Sólveig Jakobsdóttir kenndi við Menntavísindasvið
Háskóla Íslands á haustönninni. Bjarki Þór er kennaranemi en er með MA gráðu í Digital Games: Theory and Design frá Brunel
háskólanum í Lundúnum. Tryggvi hefur kennt ensku, sögu og heimspeki við MTR síðan haustið 2011. Þeir nutu styrks frá stjórn
skólans vegna þessa verkefnis. Í áfanganum verður notuð kennslubókin Eve Online: Leikir, sköpun og samfélög eftir Óla
Gneista Sóleyjarson en bókin geymir meistararitgerð hans í þjóðfræði.