Togveiðar

Nemendur í Tröllaskagaáfanga nutu fræðslu tveggja togarasjómanna á föstudag. Andri Viðar Víglundsson, vinnslustjóri á Kleifabergi RE og Rögnvaldur Jónsson 2. stýrimaður á sama skipi greindu frá því hvernig togveiðar fara fram. Þeir sögðu frá skipulagi vinnunnar um borð, hvernig ákveðið væri hvaða tegundir ætti að veiða og hvernig veiðarfærið troll virkar.

Nemendur í Tröllaskagaáfanga nutu fræðslu tveggja togarasjómanna á föstudag. Andri Viðar Víglundsson, vinnslustjóri á Kleifabergi RE og Rögnvaldur Jónsson 2. stýrimaður á sama skipi greindu frá því hvernig togveiðar fara fram. Þeir sögðu frá skipulagi vinnunnar um borð, hvernig ákveðið væri hvaða tegundir ætti að veiða og hvernig veiðarfærið troll virkar.

Hjá þeim kom fram að hafsbotninn væri ósléttur, stundum líkastur Tröllaskaga og oft væri veiði best í hlíðunum. Það væri vandasamt að toga á slíkri slóð og menn gætu lent í því að festa trollið í botni og þá væri ekki annað að gera en hífa og stundum kæmi trollið upp rifið. Tvímenningarnir sýndu myndir og myndbönd sem tekið hefur verið um borð í Kleifaberginu eða tengist veiðum skipsins. Þetta efni varpaði skýru ljósi á vinnuaðstæður um borð.

Andri Viðar og Rögnvaldur sögðu líka frá atburði sem félagar þeirra lentu í fyrir nokkrum dögum en þá færði norska strandgæslan Kleifabergið til hafnar í Tromsö og gerðar voru athugasemdir við útbúnað á trollpoka skipsins sem kallaður er “gluggi”. Þetta er gat á pokanum sem bundið er lauslega aftur en á að opnast þegar mikið af fiski er komið í pokann og hleypa út þannig að hölin verði ekki of stór. Þótt allir vilji veiða vel eru of stór höl óheppileg. Það verður að hafast undan að vinna fiskinn um borð og frysta hann áður en of langur tími líður frá því hann veiddist.