Sýrlenska eldhúsið

Mynd Ida Semey
Mynd Ida Semey

Nemendur og kennarar í áfanganum Matur og menning heimsóttu Rauða krossinn í dag og elduðu sýrlenskan mat. Tvær konur úr hópi flóttamanna Fayrouz og Joumana stýrðu þessu með Helen, sjálfboðaliða á Akureyri. Yngsti sonur Fayrouz, Abdul, tveggja mánaða var einnig með og bræddi nokkur hjörtu. MTR-liðið var aðeins á undan áætlun og fékk því stutta kynningu á starfi Rauða krossins í Eyjafirði áður en eldamennskan hófst.


Fayrouz tjáði okkur að sýrlenskur matur væri gjarnan flókinn og tímafrekur en hún var búin að velja rétti sem er fljótlegt að elda. Hópurinn var röskur og byrjaði strax að vinna og hjálpa til og ekki skifti neinu máli að önnur konan talar litla íslensku. Hún sýndi hvernig á að skera grænmeti í salati og elda kjötið. Réttirnir sem voru eldaðir voru hakk með kanil, kúmeni og grænum baunum, sem borið var fram á fati ofan á hrísgrjónum, steiktum möndlum og cashewhnetum var síðan stráð ofaná. Annar réttur var soðnar kjúklingabringur í jógúrtsósu með tahini, eining borið fram á hrísgrjónum. Fayrouz kom með einskonar tortillukökur sem voru klipptar í búta og djúpsteiktar, þeim var síðan stráð í salatið og í kjúklingaréttinn. Einnig var  búinn til eftirréttur - kaka úr semolinumjöli, smjöri, eggjum og vanillu sem bökuð var í ofni. Með kökunni var borið síróp sem var gert á staðnum. Maturinn bragðaðist afar vel og voru skiftar skoðanir um hvaða réttur væri bestur - en allir voru sammála um að þetta væri afbragðsgóður matur.


Á meðan hópurinn var að elda fengu nokkir nemendur að halda á Abdul litla. Nemendur nýttu tímann m.a. til að velta vöngum yfir aðstöðu flóttamanna, af hverju þeir væru komnir til Íslands og áttuðu sig á að þetta væri fólk eins og við, alls ekki neitt sérlega frábrugðið okkur. Ákveðið var að á matarhátíð áfangans Matur og menning yrði einnig boðið upp á rétti frá Sýrlandi. Hópurinn þakkar Fayrouz, Joumana, Helen og RKE kærlega fyrir hlýjar móttökur og mælir með svona ferðum. MYNDIR