Spennandi námskeið á Fuerteventura

Fuerteventura mynd Lára Stefánsdóttir
Fuerteventura mynd Lára Stefánsdóttir

Dagana 17. - 20. febrúar sátu tveir kennarar skólans og skólameistari námskeið á eyjunni Fuerteventura, sem er næst stærst Kanaríeyjanna og er um það bil 100 km undan norðurströnd Afríku. Námskeiðið kallaðist Sjálfbærni í kennslustofunni og í lífinu og var útbúið sérstaklega fyrir íslenska framhaldsskóla af Menningarfélaginu "Cuidando lo Nuestro" sem starfar á eyjunni. Kennarar og skólastjórnendur frá 5 íslenskum framhaldsskólum á landsbyggðinni og einum grunnskóla skráðu sig til leiks. Á námskeiðinu var hvatt til vistfélagslegrar nálgunar og ábyrgðar á náttúrunni, tengd saman staðbundin og alþjóðleg sjálfbærnimál og skoðað hvernig hægt væri að innleiða sjálfbærni og umhverfismennt í skólastarf í takti við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Dagskráin var fjölbreytt og spennandi þá fjóra daga sem námskeiðið stóð. Á fyrsta degi fengu þátttakendur kynningu á eyjunni og þeim umhverfisáskorunum sem íbúar hennar glíma við, farið var í heimsókn í vistvænan skólagarð og í lok dags var fræðsla um hringrásarhagkerfi eyjunnar sem fól m.a. í sér að bragða á ýmsum matvælum sem ræktuð eru á eyjunni og inni í því var m.a. heimsókn í ostasafn þar sem geitaostur var í aðalhlutverki. Á öðrum degi sátu þátttakendur fyrirlestra um plöntu- og dýralíf eyjunnar og áhrif örplasts á umhverfi og heilsu mannfólksins. Síðan var farið á ströndina þar sem gerðar voru ýmsar mælingar og veðurathuganir og deginum lauk með heimsókn í framhaldsskóla. Á degi þrjú voru meginþemun jarðfræði og sjálfbær list. Hófst hann á áhugaverðum fyrirlestri um það hvernig eyjaklasinn varð til, í framhaldi af honum var farið í heimsókn á vinnustofu eins merkasta listamanns eyjarinnar, myndhöggvarans Juan Miguel Cubas, og síðan stóð til að fara í hellaskoðun við sjávarsíðuna en of mikið brim kom í veg fyrir það væri hægt. Á síðasta degi námskeiðsins var vinnustofa í endurvinnslu textíls og fræðsla um notkun gervigreindar í sjálfbærnimenntun. Deginum lauk með samantekt og lokahófi þar sem þátttakendur ræddu vítt og breitt um viðfangsefni námskeiðsins.

Mikil ánægja var með námskeiðið. Viðfangsefnin voru fjölbreytt, fróðleg og skemmtileg og sáu þátttakendur mörg tækifæri til að nýta það sem fræðst var um í starfi sinna skóla. Hópurinn náði vel saman og naut samverunnar á þessari fögru eyju þar sem íbúarnir glíma við ýmis sömu vandamálin og við á okkar eyju á norðurslóðum. Góð tengsl hafa skapast við þá sem stóðu að námskeiðinu á Fuerteventura og lýstu þeir yfir áhuga á að endurgjalda heimsóknina. Hefur Via Nostra, fræðslusamfélag kennara og starfsfólks MTR, hafið vinnu við að skipuleggja slíkt námskeið sem haldið yrði í Fjallabyggð vorið 2026. Myndir