Skuggakosningar í lýðræðisviku

Skuggakosningar mynd ÞH
Skuggakosningar mynd ÞH

Skuggakosningar fóru fram í dag, 21. nóvember, í 30 framhaldsskólum á landinu m.a. hér í MTR. Sett var upp eftirlíking af kjörstað þar sem nemendur mættu og gerðu grein fyrir sér. Þá fengu þeir afhentan atkvæðaseðil með nöfnum allra þeirra 11 framboða sem bjóða fram í ár. Síðan var farið í kjörklefann og sett x á þann stað sem hver og einn kaus og einnig gátu nemendur merkt við hvort kosningaaldur ætti að miðast við 16 ára eða 18 ára aldur. Seðillinn var síðan settur í kjörkassann. Er þetta í fimmta sinn sem slíkar skuggakosningar eru haldnar hér á landi. Niðurstöðurnar endurspegla vilja nemenda um allt land og verða þær gerðar opinberar eftir að kjörstöðum lokar á kjördag alþingiskosninga, þann 30. nóvember. Spennandi verður að sjá hvort þær verði eitthvað í líkingu við raunveruleg úrslit.

Megintilgangur þessara kosninga er að þjálfa þá nemendur sem ekki hafa náð kosningaaldri í að kjósa og undirbúa þá sem hafa aldur til að kjósa í fyrsta sinn. Jafnframt fær ungt fólk reynslu í að skipuleggja og framkvæma hið lýðræðislega ferli kosninga en nemendaráð MTR sá um skipulagningu og framkvæmd hér í skólanum.

Skuggakosningarnar eru hluti af lýðræðisátakinu #égkýs sem varð til í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna árið 2014 þar sem kjörsókn eftir aldri var skrásett í fyrsta sinn. Þar reyndist þátttaka ungs fólks á aldrinum 20-24 ára slökust, aðeins 45,4%. Við þessu þurfti að bregðast því sú staðreynd að ungt fólk skilar sér síður á kjörstað ógnar bæði samfélagsstöðu þeirra og lýðræðinu. Átakið hefur skilað árangri því kosningaþátttaka yngri aldurshópa hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár þó hún sé enn almennt minni en hjá þeim sem eldri eru.

En til að vita hvað skal kjósa, þ.e. hvaða framboði treysti ég best til að berjast fyrir þeim málum sem mér finnst mikilvægust, þarf að kynna sér málin og er hluti af átakinu að fá nemendur til að velta þessum hlutum fyrir sér. Því er vikan sem skuggakosningarnar fara fram nefnd lýðræðisvika og eru kennarar þá hvattir til að leggja fyrir lýðræðistengd verkefni og stuðla að stjórnmálaumræðu í kennslustundum. Nemendur geta svo kynnt sér stefnumál flokkanna og hvað þeir hyggjast gera í málefnum ungs fólks á heimasíðu átaksins #égkýs sem er hér https://www.egkys.is/skuggakosningar

Það eru Landssamband ungmennafélaga í samstarfi við Samband íslenskra framhaldsskólanema sem standa fyrir þessu lýðræðisátaki. Myndir