Nemendur starfsbrautar brugðu sér á suðvesturhornið í síðustu viku til að taka þátt í hinni árlegu Hæfileikakeppni starfsbrauta. Keppnin fór að þessu sinni fram í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði og 12 framhaldsskólar tóku þátt, auk þess sem nemendur tveggja skóla til viðbótar mættu til að njóta. Framlag starfsbrautar MTR var glæsileg stuttmynd sem nemendur brautarinnar tóku upp og unnu í miðannarvikunni með aðstoð grísku kvikmyndagerðarkonunnar Alkistis Terzi, sem dvalið hefur hér í sveitarfélaginu við listsköpun að undanförnu.
Að taka þátt í þessari keppni hefur verið árlegur viðburður hjá starfsbrautinni undanfarin ár og alltaf er mikil tilhlökkun meðal nemenda að mæta til leiks. Líkt og áður var ferðin einnig nýtt til að fræðast og bralla eitt og annað. Þegar komið var inn fyrir borgarmörkin var rennt að Egilshöllinni og þar var farið í keilu. Sýndu nemendur þar snilldartakta og fellurnar urðu ófáar. Að lokinni spennandi keppni var svo haldið að gistiheimilinu þar sem nemendur komu sér fyrir, nærðust og brugðu sér í betri fötin.
Hæfileikakeppnin sjálf var bráðskemmtileg með fjölbreyttum atriðum og var það vandasamt verk fyrir dómnefndina að velja þrjú bestu atriðin. Dómnefndina skipuðu þau Sigurður Sigurjónsson leikari, Björk Jakobsdóttir leikkona og leikstjóri og Steinunn Þorvaldsdóttir dagskrárgerðarkona, sem er þekktust fyrir þættina Með okkar augum. Það fór þó svo að lokum að Fjölbrautaskólinn í Breiðholti bar sigur úr býtum, Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi varð í 2. sæti og Menntaskólinn á Egilsstöðum í því þriðja.
Tónlistarmaðurinn Aron Brink var leynigestur og tróð upp meðan dómarar réðu ráðum sínum og að lokinni verðlaunaafhendingu var dansað fram eftir kvöldi. Sýndu nemendur MTR góð tilþrif á dansgólfinu en voru fegnir að komast í svefn undir miðnættið að loknum viðburðarríkum degi.
Morgunninn eftir var snæddur ljúfur morgunverður áður en haldið var í Hallgrímskirkju og hún skoðuð að innanverðu, flestir þekktu hana aðeins frá hinni hliðinni. Svo lá leiðin í „menningarhúsið“ Kringluna þar sem eitthvað smávegis var verslað og borðað áður en haldið var heim á leið.
Það voru sælir og sáttir nemendur sem komu til síns heima seinni part föstudags og voru ánægðir að hafa helgina til að jafna sig áður en tekist yrði á við verkefni næstu viku í náminu. Stuttmynd hér Myndir