Ljósmynd: IMS
Þrír kennarar við MTR vinna nú með kollegum frá Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð að samvinnuverkefni sem snýst um “active citizenship” eða borgaravitund og þátttöku í samfélaginu. Í vikunni komu kennarar frá Norðurlöndunum í skólann til skrafs og ráðagerða. Einnig fór hópurinn í heimsókn í Símenntunarmiðstöð Vesturlands og í Menntaskóla Borgarfjarðar.
Þetta er Nordplus verkefni sem snýst um hvernig megi skapa umhverfi sem leyfir fólki úr öllum samfélagshópum að taka þátt, vinna saman og eiga samskipti þannig að allar raddir heyrist. Oft á tíðum getur reynst erfitt fyrir minnihlutahópa á borð við innflytjendur að taka þátt í samfélagslegum umræðum og setja sitt mark á þær.
Því er áhugavert að skoða ólíkar aðstæður Norðurlandaþjóðanna til að koma auga á vandamálin, setja fram markmið og finna lausnir. Þó að vandamálin hjá hinum Norðurlöndunum séu af töluvert öðrum toga en hér á landi getur það hjálpa að spegla sínar aðstæður í aðferðum hinna og sjá hvort þær henti heima fyrir.
Hér í MTR eru fjölmörg tækifæri fólgin í þeim kennsluaðferðum sem notast er við í skólanum sem gagnast við að efla borgaravitund nemenda. Einnig eru stjórnunaraðferðir í skólanum líklegar til að smita út frá sér þar sem kennarar og starfsfólk skólans tekur virkan þátt í ákvarðanatöku um margvíslegt mál í stjórnun skólans. Nemendur hafa jafnframt mikið að segja um nám sitt og kennarar eru sífellt að leita eftir áliti hjá nemendum um hvað betur megi fara í kennslunni.
Verkefnið er samvinnuverkefni sem hófst á síðasta skólaári og varir fram á næsta vor. Til stendur að heimsækja skóla á Norðurlöndunum í vetur og í vor verður ráðstefna um borgaravitund í Danmörku. Markmiðið er sem fyrr segir að leita lausna til að efla borgaravitund í nemenda. Lausnirnar verða settar fram í lokin í rafrænum bæklingi, handbók eða hlaðvarpi.
Þátttakendur í verkefninu frá skólanum eru Birgitta Sigurðardóttir, Guðbjörn Hólm Veigarson og Ida Marguerite Semey.