Sjávarnytjar í Ólafsfirði

Nemendur í Tröllaskagaáfanga hittu áhöfnina á fjölveiðiskipinu Þorleifi EA-88 frá Grímsey í vettvangsferð um hafnarmannvirkin í Ólafsfirði. Þorleifur var að leggja að til að landa. Aflinn var átta tonn af vænum þorski. Skipstjórinn sagði að meðalþyngdin væri um átta kíló. Einnig hafði veiðst svolítið af karfa og makríl.

Nemendur í Tröllaskagaáfanga hittu áhöfnina á fjölveiðiskipinu Þorleifi EA-88 frá Grímsey í vettvangsferð um hafnarmannvirkin í Ólafsfirði. Þorleifur var að leggja að til að landa. Aflinn var átta tonn af vænum þorski. Skipstjórinn sagði að meðalþyngdin væri um átta kíló. Einnig hafði veiðst svolítið af karfa og makríl.

 

Aflinn fékkst í net í fjarðarkjaftinum og fer á Fiskmarkað Siglufjarðar. Netin eru grófriðin og því vaknaði spurningin hvers vegna jafn lítill fiskur og makríll festist í þeim. Skipstjórinn sagði að hann festist á kjaftinum og spólaði sig fastan. Þeir sem væru með kjaftinn lokaðan syntu í gegn. Áhöfnin ætlaði strax út aftur eftir löndun, leggja netin og vitja svo aftur eftir hálfan sólarhring.

Hafblik var næsti viðkomustaður í vettvangsferðinni. Þar var verið að pakka saltfiski fyrir markaði í Suður-Evrópu. Fiskurinn var þorskur af svipaðri stærð og Þorleifur var að landa. Fiskurinn var búinn að liggja í fjórar vikur í saltinu. Starfsmenn sögðu að þetta væri handfærafiskur, - afbragðsvara. Í Hafbliki skoðuð nemendur fiskvinnsluvélar, bæði til að flaka og hausa. Þær voru frá Baader, fyrirtækinu sem nú hefur lotið í lægra haldi fyrir Vélfagi í sölu á fiskvinnsluvélum í íslenska togara. Fiskvinnsluvélar voru nemendum ofarlega í huga eftir heimsókn Ólafar í Vélfagi í síðustu viku.

Að síðustu heimsótti hópurinn fyrirtækið Norlandia. Þar var verið að pakka þurrkuðum fiski í strigapoka fyrir markað í Nígeríu. Forstjórinn sagði að þar í landi vildu menn ekki plastumbúðir, þær sköpuðu bara mengun. Einnig var verið að slægja flatfisk en lifrina úr honum verður að fjarlægja áður en þurrkun hefst því annars þránar hún og spillir fiskinum. Nemendur fengu meðal annars að líta inn í þurrkklefa þar sem fiskurinn þornar á um það bil viku. Auk flatfisksins beið keila þess að komast í þurrkinn. Myndir