Sjálfsefling – taktu stjórnina

Hópmynd mynd GK
Hópmynd mynd GK

Hamingjan og rannsóknir á henni voru meðal viðfangsefna í einum miðannaráfanganum. Nemendur fóru meðal annars út á meðal fólks, spjölluðu við bæjarbúa og spurðu hvað veitti þeim hamingju. Nemendur lærðu að hrósa og taka hrósi, kanna eigin styrkleika, setja sér markmið og fleira. Í grunninn snérist áfanginn um að kynnast sjálfum sér betur, draga úr kvíða, auka sjálfstraust og bæta samskipti.

 

Í lok vikunnar lögðu nemendur mat á áfangann og lýstu almennt mikilli ánægju með hann. Mæling á sjálfstrausti gaf til kynna að meðaltalið hefði hækkað úr tæplega fjórum upp í tæplega sex í vikunni. Nemendur gáfu áfanganum einkunnina níu og liðlega helmingur sagðist þekkja sjálfa(n) sig betur eftir vikuna en áður. Leiðbeinandi í áfanganum var Sólveig Helgadóttir ACC markþjálfi.

 

Dæmi um umsagnir nemenda:

 

  • Ég fékk að kynnast mér betur. Ég lærði að allt er hægt og ekkert er það hræðilegt að þú getur ekki tekist á við það.
  • Ég fékk að vita meira um sjálfan mig og hvert ég er að stefna.
  • Ég lærði um sjálfa mig betur. Ég lærði að treysta öðrum og að vinna betur í hóp.
  • Ég fékk aðeins meira sjálfstraust. Ég skemmti mér og ég mun reyna vera jákvæðari eftir þetta.
  • Mér fannst vikan mjög góð. Það var stundum erfitt að taka á móti viðfansefninu en eftir á var viðfangsefnið nauðsynlegt. Það sem stóð upp úr var gleðin í stofunni.
  • Mér fannst þessi vika erfið en skemmtileg. Mér fannst skemmtilegast að gera draumakortið. Það hefði mátt stytta dagana aðeins en annars var þetta bara geggjað.
  • Mér fannst hún mjög fín. Það var gott að kúpla sig út úr því venjulega og tala um hvernig hægt sé að bæta sig í lífinu. Fyrirmyndir og markmiðasetning stóð uppúr hjá mér. Ég held að þetta gæti ekki verið eitthvað öðruvísi. Takk fyrir mig. Myndir