Sigurvegurum fagnað mynd GK
Ástarpungunum Júlíusi og Tryggva Þorvaldssonum, Herði Inga Kristjánssyni og Mikael Sigurðssyni var fagnað sérstaklega í skólanum í morgun. Tilefnið er auðvitað glæsilegur sigur þeirra í Söngkeppni framhaldsskólanna á laugardagskvöldið. Flaggað var fyrir köppunum og þeir sýndu verðlaunagripinn við stutta athöfn. Lára Stefánsdóttir skólameistari sagði þar að þeir hefðu frá upphafi vakið athygli í skólanum fyrir öguð vinnubrögð og skarpa sýn á hvað þeir vildu gera. Þeir hefðu verið skapandi í verkefnum sínum og náð árangri. Strákarnir eru allir nemendur á tónlistarbraut en stunda jafnframt nám á öðrum brautum. Lára sagði að fyrir alla í Menntaskólanum á Tröllaskaga væri árangur þeirra í söngkeppninni einstaklega ánægjulegur. Hún þakkaði þeim fyrir það sem þeir hefðu lagt á sig fyrir skólann og sagði að það væri frábært að hafa þá sem nemendur. Hún þakkaði jafnframt Guðmanni Sveinssyni og Katrínu Ýr Óskarsdóttur, kennurum sem aðstoðuðu þá við undirbúninginn fyrir keppnina.