Hópmynd GK
Menntaskólinn á Tröllaskaga er í margvíslegu erlendu samstarfi og er þar bæði um að ræða verkefni með virkri þátttöku nemenda og eins verkefni þar sem kennarar sækja sér þekkingu eða veita hana. Talsverð eftirspurn er eftir þeirri þekkingu sem orðið hefur til á fjarkennslu og upplýsingatækni í MTR og eitt þeirra verkefna sem er í gangi nú er af þeim toga. Um er að ræða tveggja ára verkefni þar sem unnið er með aðilum í Póllandi að gerð rafræns kennsluefnis í ensku, en efnið verður aðgengilegt og ókeypis á netinu. Verkefnið er styrkt af sjóði sem kallast EEA, en hlutverk hans er að efla tengsl Íslands, Noregs og Liechtenstein við ýmis önnur Evrópuríki, og í því veita fimm kennslukonur frá MTR pólskum kollegum sínum sérfræðiþekkingu í að þróa kennsluhætti og innleiða notkun upplýsingatækni í skólastarfi.
Verkefnið hófst fyrir ári síðan þar sem línurnar voru lagðar í heimsókn pólsku samstarfsaðilanna til Ólafsfjarðar. Á vorönninni héldu svo okkar konur til Katowice í Póllandi þar sem nokkurra daga vinnutörn var í verkefninu. Milli vinnutarna síðasta vetur var verkefnið þróað áfram með samstarfi í gegnum netið.
Nú er seinni hálfleikur hafinn og á dögunum komu pólsku samstarfsaðilarnir aftur í heimsókn. Urðu þar fagnaðarfundir því hópurinn er farinn að slípast vel saman og kynnast vel. Unnið var hörðum höndum þessa daga og lærðu pólsku kennararnir m.a. á ýmis hentug forrit til að nýta í verkefninu s.s. Canva, Screencastify og ToonyTool. Utan dagskrár voru böndin treyst með sameiginlegum kvöldverði og annarri samveru. Í október verður svo komið saman á ný úti í Póllandi og verkefninu lýkur með ráðstefnu þar í landi um mitt næsta ár. Ráðstefnan verður opin kennurum sem hafa áhuga á að kynna sér framgang og afurðir verkefnisins.