Samstarfsverkefni um menningararf

Hópmynd mynd ÞH
Hópmynd mynd ÞH

Þessa viku dvelur 15 manna hópur lettneskra nemenda og þrír kennarar þeirra í Fjallabyggð til að taka þátt í samstarfsverkefni með nemendum í MTR. Þetta er Nordplus verkefni sem snýst um að kynna sér menningararf Íslands, jafnt áþreifanlegan sem óáþreifanlegan. Hinir erlendu gestir koma frá Saldus vidusskola sem er í bænum Saldus þar sem búa um tíu þúsund manns. Nemendurnir eru í heimagistingu hjá nemendum og starfsfólki MTR og fá þannig nasasjón af lífinu í íslensku samfélagi.

Lettneski hópurinn kom til Ólafsfjarðar snemma á mánudagskvöldi eftir flug að utan og rútuferð frá Keflavíkurflugvelli. Þar tóku gestgjafarnir á móti þeim og fylgdu hverjum og einum á sinn dvalarstað, en sumir gista á Ólafsfirði og aðrir á Siglufirði. Voru gestirnir ánægðir en nokkuð þreyttir þegar lagst var á koddann eftir langt ferðalag.

Fyrsti dagurinn í formlegri dagskrá var á Siglufirði. Þar var byrjað á heimsókn á Síldarminjasafnið þar sem saga síldveiða og hin víðtæku áhrif hennar voru skoðuð frá ýmsum hliðum undir leiðsögn starfsfólks safnsins og einnig var litið inn í Slippinn þar sem fræðst var um bátasmíði. Í hádeginu var snætt á hinu nýja kaffihúsi Síldarminjasafnsins. Eftir hádegið heimsóttu nemendur svo Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar og fengu þar fræðslu um bæði íslensk og grísk þjóðlög. Einnig sóttu þeir Ljóðasetur Íslands heim og fræddust um íslenska ljóðlist, þá sérstaklega Eddukvæðin og íslenska bragfræði. Er óhætt að segja að ýmiskonar menningararfur hafi komið við sögu í þessum heimsóknum og veitt nemendum nýja sýn á viðfangsefni verkefnisins.

Um kvöldið var svo spilakvöld í skólanum þar sem nemendum gafst tækifæri til að kynnast betur og eiga góða stund saman.

Nánari fréttir af verkefninu koma að því loknu. Myndir