Þorsteinn og Þórarinn mynd HF
Viljayfirlýsing um samstarf Pálshúss og Menntaskólans á Tröllaskaga var undirrituð í skólanum í hádeginu í dag. Samstarfið mun meðal annars felast í heimsóknum nemenda skólans og nýtingu á safnkosti og sýningarsölum safnsins til skapandi starfa og verkefna nemenda. Einnig getur falist í samstarfinu miðlun á þekkingu starfsfólks Pálshúss til nemenda MTR með erindum um safnkostinn, uppbyggingu safnsins, frumkvöðlastarf, þátttöku í ferðaþjónustu á Tröllaskaga og fleiru. Þá er mögulegt að sýna verk nemenda í húsinu.
Í Pálshúsi er safn, menningar- og fræðslusetur. Í húsinu er Náttúrugripasafn Ólafsfjarðar og grunnsýningin „Flugþrá“ þar sem skoða má alla íslensku fuglaflóruna. Önnur grunnsýning er um náttúruundrið Ólafsfjarðarvatn. Húsið er kennt við Pál Bergsson sem var forkólfur í útgerð í Ólafsfirði. Elsti hluti hússins var reistur í lok nítjándu aldar.
Á myndinni eru Þorsteinn Ásgeirsson sem situr í stjórn Pálshúss og Þórarinn Hannesson, menningarfulltrúi menntaskólans.