Samstarf við 27 af 30 löndum sem Evrópustyrkir ná til

Ida Semey
Ida Semey

Menntaskólinn á Tröllaskaga hefur notið ríkulegra styrkja úr áætlunum ESB síðustu ár og tekið þátt í fjölda verkefna með tilstuðlan þeirra. Þann 8. maí sl. tók MTR þátt í uppskeruhátíð Evrópuverkefna, bar hún yfirskriftina Evrópusamvinna í 30 ár. Fór hátíðin fram í Kolaportinu í Reykjavík, var öllum boðið að líta inn til að fræðast og njóta.

Ida Semey, kennari skólans, hefur stýrt vinnu við erlend verkefni í MTR og náð árangri sem eftir hefur verið tekið. Hefur mikið verið leitað til skólans um samstarf bæði fyrir nemendur og kennara. Ida var í kynningarbás skólans á uppskeruhátíðinni ásamt Láru Stefánsdóttur skólameistara. Kom fjöldi fólks þar við og spurði margs. Lára tók einnig þátt í pallborðsumræðum á málþinginu og vakti framlag hennar töluverða athygli. Ræddi hún sérstaklega hversu mikilvægt væri fyrir fámennan skóla í dreifbýli að hafa tök á því að senda nemendur sína og kennara vítt og breitt um Evrópu til að víkka sjóndeildarhringinn, auka menntun og koma á nýjum kynnum. Ekki síður væri ánægjulegt að fá góða gesti í skólann og fræða þá um aðferðafræði skólans og starfshætti að ógleymdri íslenskri menningu og sögu. Í máli Láru kom einnig fram að skólinn hefur átt í samstarfi við aðila frá 27 af þeim 30 löndum sem Evrópusamstarfið nær til með tilstuðlan Evrópustyrkjanna.

Á hátíðinni var Evrópuverkefnum sem þykja hafa staðið upp úr undanfarin ár veittar viðurkenningar. Fékk Menntaskólinn á Tröllaskaga viðurkenningu fyrir endurmenntunarnámskeið sem starfsfólk skólans sótti í Puerto de la Cruz á norðurströnd Tenerife í kjölfar Covid faraldursins. Þar var megin viðfangsefnið streita, að læra að þekkja streituvalda og að tileinka sér aðferðir til að vinna bug á þeim sem svo aftur minnkar hættuna á kulnun í starfi. Þetta var vikunámskeið, styrkt af Erasmus+

Á uppskeruhátíðinni var árangri undanfarinna ára fagnað og gestir gátu kynnt sér fjölmörg verkefni sem hafa fengið styrki úr áætlunum ESB. Verkefnin komu víða að úr samfélaginu, enda hafa samstarfsáætlanir ESB styrkt íslenska aðila á ýmsum sviðum t.d. á sviði menntamála, kvikmyndagerðar, æskulýðsmála, rannsókna og nýsköpunar. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, opnaði hátíðina og fjölmargir aðilar, m.a. menntastofnanir, félagasamtök og sveitarfélög kynntu árangur sinna verkefna. Einnig kynntu sendiráð nokkurra aðildarríkja Evrópusambandsins, Sendinefnd ESB og kjörræðismaður Rúmeníu á Íslandi, menningu sína og tengsl sín við Ísland.

Að málþinginu stóðu Rannís, utanríkisráðuneytið, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og sendinefnd ESB á Íslandi og var það að morgni sýningardagsins. Málþingið bar yfirskriftina: EES í 30 ár – ávinningur, tækifæri, áskoranir. Þar var sjónum beint að þátttöku Íslands í innri markaði Evrópu og evrópskum samstarfsáætlunum og rætt hvaða áskoranir og tækifæri framtíðin ber í skauti sér. Málþingið sátu fjöldi fulltrúa sendiráða, til að fræðast og leita eftir samstarfi, sem og ráherrar og þingmenn. Á seinustu 30 árum hefur Íslandi tekist með góðum árangri að tryggja sér ESB fjármögnun og þátttaka Íslands í samstarfsáætlununum hefur skapað dýrmæta þekkingu og reynslu. Á árunum 2014 til 2020 stunduðu rúmlega 26 þúsund manns nám á Íslandi og heimsóttu Ísland sem hluta af EES-samstarfinu. Á sama tímabili stunduðu rúmlega 14 þúsund Íslendingar nám í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Í dag stuðlar þátttaka Íslands í samstarfsáætlunum ESB að öflugu samfélagi, atvinnulífi og menningu hér á landi. Myndir