Samið við Grænland

Hópmynd mynd LS
Hópmynd mynd LS
Menntaskólinn á Tröllaskaga hefur samið við IKIIN, menntamálaráðuneyti heimastjórnarinnar í Grænlandi, um ráðgjöf við notkun upplýsingatækni í kennslu á framhaldsskólastigi og sérstaklega aðferðafræði fjarkennslu. Síðasta vetur komu fulltrúar frá IKIIN í skólann og vakti aðferðafræði skólans athygli þeirra og einnig lítið brotthvarf.

Menntaskólinn á Tröllaskaga hefur samið við IKIIN, menntamálaráðuneyti heimastjórnarinnar í Grænlandi, um ráðgjöf við notkun upplýsingatækni í kennslu á framhaldsskólastigi og sérstaklega aðferðafræði fjarkennslu. Síðasta vetur komu fulltrúar frá IKIIN í skólann og vakti aðferðafræði skólans athygli þeirra og einnig lítið brotthvarf.
Grænland er stórt land en strjálbýlt, ferðakostnaður er gríðarlega hár og netsamband afar dýrt víða þó það hafi lagast á suðvesturströndinni upp til Nuuk. Reynsla er af því að fá fjarkennslu frá Danmörku og London í framhaldsskóla í Sisimiut þar sem reynslan er einna mest. En skólinn í Sisimiut hefur ekki boðið upp á fjarnám frá sér. Lára Stefánsdóttir skólameistari var skipuð í nefnd af IKIIN ásamt fulltrúum frá framhaldsskólanum í Sisimiut og tæknimanni hjá heimastjórninni. Fundaði nefndin ásamt starfsmönnum framhaldsskóladeildar IKIIN í Nuuk fyrr í mánuðinum og hafa gert vinnuáætlun sem gerir ráð fyrir að skila tillögum til heimastjórnarinnar fyrir 1. mars 2017.
Grænlendingar hafa nýverið lagt niður svokallað brúarnám fyrir eldri nemendur til að ljúka framhaldsskóla. Námið var ekki ólíkt því sem tíðkast hér á landi, eins árs nám til undirbúnings háskólanámi. Reynslan var þokkaleg framanaf en nemendur hafa átt erfitt með háskólanám í framhaldinu. Það er mat IKIIN að undirbúningurinn sé ekki nægur og því mikilvægt að allir fari í gegnum framhaldsskólann og ljúki stúdentsprófi til að ráða við háskólanám. Hingað til hafa Grænlendingar þurft að flytja búferlum til þeirra fjögurra framhaldsskóla sem eru í landinu til að stunda nám. Það hefur í för með sér mikla röskun fyrir fjölskyldur þeirra sem eldri eru. Hefur þetta haft áhrif á atvinnu maka, líðan langt frá heimabyggð og fleira. Vilja Grænlendingar því leita leiða til að fullorðnir geti stundað nám í heimabyggð og telja að aðferðafræði MTR geti gagnast þeim. Myndir
Menntaskólinn á Tröllaskaga hefur þróað aðferðafræði sem hefur gefist vel frá upphafi en lítið er til skjalfest eða skilgreint af þeim aðferðum þó finna megi upplýsingar á heimasíðu og víðar. Ætlar skólinn því að nota tækifærið, skilgreina og skrá aðferðirnar og miðla þeim til Grænlendinga. Á sama tíma verður aðferðafræði endurskoðuð og spegluð m.a. í rannsóknum Þuríðar Jóhannsdóttur Ph.D. frá Háskóla Íslands sem hefur stundað rannsóknir í skólanum frá árinu 2013. Við erum stolt af því að fá að starfa með IKIIN og skólanum í Sisimiut og teljum feng að því að hafa tækifæri til að læra af samstarfinu, bæði um skólakerfið í Grænlandi og okkur sjálf.