MTR hóf á síðasta ári þátttöku í grænfánaverkefninu, Skólar á grænni grein, sem er rekið er af Landvernd á Íslandi. Verkefnið er stærsta umhverfismenntaverkefni í heimi og er haldið úti af samtökunum Foundation for Environmental Education.
Skólar þurfa að taka sjö markviss skref áður en hægt er að sækja um afhendingu grænfánans. Sótt var um fyrstu úttekt á grænfánastarfinu síðastliðið vor, en vegna aðstæðna var henni frestað og fór úttektin því fram rafrænt í gær. Katrín Magnúsdóttir, verkefnisstýra, hitti nýnema í áfanganum Inngangur að náttúruvísindum, sem eru að vinna að umhverfismálum þessa stundina og einnig fulltrúa úr umhverfisnefnd skólans sem starfaði síðasta vetur. Farið var yfir markmið og aðgerðir sem fram hafa farið til að ná þeim, en unnið var með þemað: Neysla og úrgangur. Katrín spurði nemendur meðal annars hvort aðrir nemendur og kennarar hefðu vitað af starfinu og sýnt því áhuga. Kom í ljós að margir kennaranna eru með fræðslu um umhverfismál sem þeir flétta inn í fjölbreytt fög í námskránni án þess að þau beri yfirskriftina umhverfisfræðsla og allir staðnemar hafa verið hvattir til að fylgja instagramsíðu nefndarinnar. Meðal verkefna sem þóttu vel heppnuð á síðasta ári var fataskiptasláin. Það verkefni er komið til að vera.
Um tvö hundruð skólar eru þátttakendur í grænfánaverkefninu á Íslandi. Fyrstu skólarnir voru grunnskólar en nú eru skólar á öllum skólastigum þátttakendur, þar á meðal tveir háskólar. MTR mun flagga sínum fyrsta grænfána þann 23.september næstkomandi. Verkefnisstýra grænfánans í MTR er Karólína Baldvinsdóttir.