Ólöf María Einarsdóttir er frá Dalvík. Hún útskrifaðist af íþróttabraut MTR að lokinni haustönn 2017. Í framhaldi af því hefur hún stundað nám í bæði sjávarútvegs- og viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri. Hefur hún lokið sjávarútvegsfræðinni og klárar viðskiptafræðina í gegnum fjarnám nú á vordögum. Ólöf María býr í dag á Akureyri og starfar sem fjármálastjóri hjá EB ehf. Við spurðum Ólöfu hvernig námið í MTR hafi undirbúið hana fyrir háskólanám og hvað sé eftirminnilegast frá skólagöngunni.
Námið í MTR undirbjó mig mjög vel undir háskólanámið. Í háskólanum hafði ég sama hátt á og ég hafði vanist Í MTR; að læra jafnt og þétt yfir alla önnina og með því var ekki eins mikið efni sem þurfti að fara yfir fyrir lokaprófin. Þessi námstækni og sá agi sem ég tamdi mér í MTR hefur gagnast mér einstaklega vel í mínu námi. Mér fannst ég mjög vel undirbúin fyrir háskólanám að lokinni útskrift í MTR.
Eftirminnilegast úr MTR er fólkið, allir íþróttaáfangarnir og ferðirnar erlendis með skemmtilegum hópi bæði kennara og nemenda.