Lísebet Hauksdóttir
Á vorönn er í þriðja sinn boðið upp á valáfanga þar sem fjallað er kynheilbrigði í víðum skilningi. Meðal annars er rætt og frætt um samskipti á netinu, kynferðislega áreitni og hvernig tilfinningar, sjálfsmynd og samskipti geta haft áhrif á væntingar og mörk.
Í áfanganum verður einnig fjallað um margvíslegar kynhneigðir, fjölbreytileika, femínisma, kynfæraheilsu og sérstök áhersla er á mörk í kynlífi, klám, ofbeldi og þolendaskömm.
Áfanginn er ekki flokkaður sem hefðbundin kynfræðsla, heldur lýðheilsuáfangi með forvarnargildi og er hluti af Heilsueflandi framhaldsskóla.
Þá er einnig í boði valáfangi í geðrækt en hann hefur verið vinsæll undanfarin ár. Þar er fjallað um áskoranir daglegs lífs og streituvalda í lífi fólks. Nemendur fá í hendurnar verkfæri til að bregðast við mismunandi aðstæðum sem geta komið upp í lífi fólks. Þar á meðal er núvitund, djúpöndun, hugleiðsla og slökun.
Báðir áfangarnir miða að því að fræða ungmenni um þá hluti og aðstæður sem sífellt er að koma upp og er áberandi í umræðunni um þessar mundir og eru því mjög mikilvægir.
Lísebet Hauksdóttir er kennari áfanganna og hefur jafnframt samið þá. Hún hefur mikla reynslu af vinnu með ungmennum en auk þess að vera lýðheilsu- og íþróttakennari skólans starfar hún í félagsmiðstöð og sundlaug.