Forvarnardagurinn mynd GK
Menntaskólinn á Tröllaskaga er heilsueflandi framhaldsskóli og leitar ýmissa leiða til að huga að jafnt andlegri- sem líkamlegri heilsu nemenda sem starfsfólks. Fastur liður í forvarnarstarfi skólans er þátttaka í Forvarnardeginum en þá er sjónum sérstaklega beint að ungmennum í 9. bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Að Forvarnardeginum standa embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Íþrótta- og ólympíusamband Íslands, Skátarnir, Ungmennafélag Íslands, Rannsóknir og greining, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samstarf félagasamtaka í forvörnum, Samfés og Heimili og skóli, auk embættis landlæknis sem fer með verkefnastjórn Forvarnardagsins.
Í tilefni dagsins fengu nýnemar í MTR kynningu á góðum árangri í forvarnarmálum á Íslandi sem lýsir sér m.a. í minnkandi áfengisneyslu og reykingum meðal ungs fólks. Nýjar áskoranir, s.s. neysla orkudrykkja, notkun nikótínpúða og of lítill svefn ungmenna, voru einnig ræddar. Auk þess var fjallað um verndandi þætti gegn áhættuhegðun. Þeir þættir eru samvera með fjölskyldu, þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og að leyfa heilanum að þroskast. Nýnemarnir tóku að því loknu þátt í hópavinnu og umræðum um þessi efni og skráðu og skiluðu inn hugmyndum sínum á vef forvarnardagsins. Svörum allra skóla sem taka þátt er safnað þar saman til að finna samnefnara í umræðum nýnema og eru niðurstöðurnar nýttar í áframhaldandi forvarnarvinnu.
Á síðunni https://www.forvarnardagur.is/ er hægt að finna ýmis konar fræðslu og upplýsingar sem foreldrar eru hvattir til að kynna sér.