Íslandsklukkan mynd GK
Opinn dagur var haldinn í Háskólanum á Akureyri sl. miðvikudag. Þar gafst gestum og gangandi tækifæri á að kynna sér úrvalið í grunnnámi skólans. Hátíðarsalnum var breytt í líflegt sýningarsvæði þar sem hver námsleið var með sinn bás. Þar kynntu stúdentar námið og deildu reynslu sinni og upplifun af lífinu í HA og starfsfólk skólans svaraði spurningum um námið. Einnig var boðið upp á skipulagðar gönguferðir um háskólasvæðið þannig að gestir gætu kynnt sér aðstöðuna í skólanum.
Nemendur úr framhaldsskólum á Norður- og Austurlandi fjölmenntu á kynninguna í skipulögðum rútuferðum í boði háskólans. Í þeirra hópi voru annars- og þriðjaárs staðnemar úr MTR sem sumir hverjir stefna á frekara nám í HA. Urðu nemendur margs vísari um hvað væri í boði og hvernig námið væri skipulagt. Þótti þeim sérstaklega gaman og gagnlegt að tala við stúdenta sem þekkja námið í HA af eigin raun. Ekki skemmdi svo fyrir að í lok kynningarinnar var boðið til pizzuveislu.